Hildur Yeoman hefur unnið verslunarstörf frá því hún var unglingur og segir að það hafi verið ansi furðuleg tilfinning að aðstoða konur við að finna sér kjóla án þess að mega koma nálægt þeim.

Rómantískir bíltúrar

„Í sumum tilvikum stóð ég bara bak við borð í hæfilegri fjarlægð og benti á það sem þær vantaði. Ég er vön að veita lúxusþjónustu og fannst þetta þess vegna mjög erfitt. En sem betur fer vorum við komin með fína netverslun og það versluðu langflestir á netinu. Við maðurinn minn vorum í því að skutla hingað og þangað eða senda út á land. Áttum rómantíska skutlbíltúra í úthverfin, nú þekki ég alls konar hverfi sem ég hafði ekki komið í áður,“ segir Hildur brosandi.

Hún segist fljótt hafa gert sér grein fyrir þeim vandamálum sem gætu komið upp vegna faraldursins.

„Framleiðslan myndi mögulega stoppa ef ég gæti ekki pantað efni. Ég var líka komin í pælingar um gengisbreytingar og alheims­kreppu. Ég var orðin ansi svartsýn og tæp á taugum þarna á tímabili,“ segir hún.

Mynd/Saga Sig

Vitundarvakning

Hildur segist hafa fundið fyrir ákveðinni vitundarvakningu þegar kemur að stuðningi við íslensk fyrirtæki í kjölfar faraldursins.

„Fólk áttar sig á því að ef það vill að uppáhalds búðin, veitingastaðurinn eða hönnuðurinn þeirra gangi þá þarf að styðja við þetta. Það er líka eins gott að það gangi betur núna heldur en í COVID. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig var að reyna að selja fína kjóla þegar það voru engin afmæli, fermingar, frumsýningar, ekkert partí og ekkert stuð,“ segir hún.

Hildur segist að sama skapi hafa tekið eftir sterkari umhverfismeðvitund meðal Íslendinga.

„Fyrir nokkrum árum kvartaði fólk meira undan verði. Fötin mín eru ekki ódýr og föt eiga ekki að vera ódýr. Þetta er fjárfesting og það á að hugsa vel um þau, hengja þau fallega upp, laga saumsprettur og ekki vera að þvo þau of mikið. Við þurfum heldur ekki að eiga svona mikið af fötum.

Ábyrgðin liggur hjá framleiðendum en ekki síður hjá neytendum. Það er algjör friðþæging að kaupa bol úr lífrænni bómull sem þú ætlar bara að nota einu sinni og henda svo. Það er ekkert umhverfisvænt við það. Við erum að reyna að laga og gera betur, en þú verður líka að kjósa með veskinu þegar vel er gert,“ segir Hildur.

Hún segist eiga í einstaklega góðu og persónulegu sambandi við verksmiðjuna sína í Eistlandi.

„Við framleiðum aldrei mikið af neinu, ég vil ekki sitja uppi með stóran lager, það er mjög óumhverfisvænt. Ég er mjög heppin að þau leyfa mér að prufa mig áfram með snið og efni. Eins virða þau umhverfissjónarmið okkar og halda upp á minni efnisbúta sem falla til þegar efnið er klippt. Við hendum því aldrei efnum og höfum verið að nýta efnisafgangana í allskonar skemmtileg verkefni. Til dæmis nýttum við afgangs pallíettuefni í toppa til styrktar UN Women núna á HönnunarMars,“ segir Hildur.

Mynd/Saga Sig

Hannar fyrir Khruangbin

Hvað er á döfinni hjá þér, er von til dæmis á einhverjum skemmtilegum samstörfum?

„Núna er ég að vinna með bassaleikara og söngkonu sem heitir Laura Lee og er í hljómsveit sem heitir Khruangbin. Hún fékk lánaðar nokkrar flíkur úr síðustu sumarlínu fyrir tónleikaferðalag og þannig kynntist ég tónlistinni þeirra. Tónlistin þeirra hafði mikil áhrif á nýju línuna mína og Laura varð óvænt músa línunnar ásamt fleirum.

Ég elska að vinna með tónlistarfólki, mér finnst það mjög gefandi. Ég er mikil áhugamanneskja um tónlist og vann í plötubúð í mörg ár áður en ég fór að vinna með föt. Þannig ég hef alltaf unnið mikið með dönsurum. Vonandi vinn ég meira með einhverjum geggjuðum dönsurum og danshöfundum á næstunni. Sendi það út í kosmósið,"segir Hildur

Mynd/Saga Sig

Meira flæði

Segðu mér frá nýjustu línunni þinni, hvernig varð hún til og hvaðan fékkstu innblástur?

„Við hönnuðum línuna í vetur. Við fylltum stúdíóið af sumarinnblæstri, vorum með exótísk blóm og höfðum sankað að okkur efnum í björtum litum. Ég nota mikið tónlist þegar ég er að hanna og að þessu sinni var mikið um suðræna tónlist en einnig mikið diskó. Skærir litir og sexí snið.“

Nafnið á línunni, Cheer up, segir hún vera vísun í bjartari tíma, sól, sumar og stuð.

„Eftir þennan endalaust erfiða og dimma vetur þá þurfum við gleðibombu, fyrir mér stendur línan fyrir það. En svo hefur þetta líka vísun í það að við byrjuðum að vinna línuna út frá samstarfi við tónlistarkonuna og íkonið Cher. Við vorum fengin til að hanna tillögur að sviðsfatnaði á Cher. Við fengum því miður ekki verkefnið, þar sem gamall vinur hennar, Bob Mackie, ákvað að taka þetta að sér. Það er erfitt að keppa við þann snilling en Cher er víst voða ánægð með línuna og vonandi sjáum við hana í Cheer up! Það væri nú algjör draumur í dós.“

Ertu byrjuð að huga að næstu línu?

„Já, ég er byrjuð að vinna að næstu línu, það gerist yfirleitt þegar ég er að hanna línu að önnur fæðist út frá henni. Svo er ég mikið að huga að því þessa dagana hvernig ég vil hafa flæðið í minni vinnu, það er oft mikill hraði í tískubransanum og ég er að reyna að finna minn takt. Við hér heima pössum alls ekki inn í útlenska módelið af „seasons“, enda er þetta að mínu mati úrelt. Mig langar frekar að gera stíla sem ferðast á milli og eru ekki bundnir við eina línu.“

Verslun Hildar er við Skólavörðustíg 22b en einnig er hægt að kaupa línuna á hilduryeoman.com.

Mynd/Saga Sig
Mynd/Saga Sig