Bachelor keppandinn Rachael Kirkconnell er í sárum eftir fregnir af því að pipar­sveinninn Matt James hafi verið að stinga saman nefjum við aðra konu, á sama tíma og hann var að hitta hana, að því er fram kemur á vef US We­ekly. James heldur því hins­vegar fram að öllu hafi verið lokið á milli þeirra.

Eins og Bachelor að­dá­endur vita komst Rachael alla leið í úr­slita­þátt síðustu seríu af þáttunum, þar sem Matt James á­kvað að lokum að hún væri hin eina rétta. Babb kom þó í bátinn þegar upp komst um búninga­partý sem Rachael hafði mætt í, í­klædd búningi frá þeim tíma þegar þræla­hald var enn við lýði.

Eftir allra síðasta þáttinn af seríunni kom fram að Matt hefði sagt skilið við Rachael vegna málsins. Var ljóst að það mátti rekja til við­bragða hennar við málinu, en James upp­lýsti að hann hefði þurft að út­skýra fyrir henni hvers vegna myndirnar væru rasískar og hvernig veru­leiki svartra er í Banda­ríkjunum.

Í frétt US We­ekly segir að Kirkconnell full­yrði hins­vegar að hún og James hafi verið farin að stinga saman nefjum að nýju. Hún hafi því upp­lifað sig „mis­notaða“ þegar hún hafi komist að því að James væri á sama tíma að stinga saman nefjum við konu að nafni Grace. Eftir­nafn hennar er ekki gefið upp í fréttinni.

Þar kemur fram að James og Grace þessi hafi þekkst áður en serían af Bachelor hafi verið tekin upp. Þau hafi meðal annars áður farið á stefnu­mót saman og full­yrt er að James hafi ólmur viljað að hún tæki þátt í Bachelor seríunni.

Fram kemur að það hafi verið Grace sjálf sem hafi upp­lýst um að hún væri að hitta James hjá Reality Ste­ve í beinni út­sendingu á Insta­gram. Segir í um­fjöllun US We­ekly að báðar hafi þær Grace og Kirkconnell hætt að hitta Matt James eftir að þær hafi komist að því að hann væri að tala við þær á sama tíma.

Segir í fréttinni að Rachael hafi komist að málinu á meðan hún hafi verið í heim­sókn hjá Matt í New York. Hún og Matt hafi meðal annars verið farin að ræða fram­tíðina á al­var­legum nótum þegar upp komst um mála­vexti.

„Rachael á mjög erfitt núna, vegna þess að hún var von­góð um að hlutirnir myndu ganga upp. Hún er enn að melta þetta,“ hefur US We­ekly eftir mann­eskju sem sögð er náin Rachael.

Þá hefur miðillinn eftir heimildar­manni að James hafi haft sam­band við Grace og spurt hana hvort hún væri til í að hanga með sér sunnu­daginn 4. apríl síðast­liðinn. Það hafi hann gert eftir að hafa keypt flug­miða handa Kirkconnell degi fyrr en þau Kirkconnell og James áttu rómantíska daga saman í New York í kringum 8. apríl.

Grace hafi séð Insta­gram myndir Rachael og um leið haft sam­band við hana til að láta hana vita af því sem væri í gangi. Þá segir Grace að hún telji að Matt hafi einungis skráð sig í Bachelor fyrir frægðina, ekki til þess að finna hina einu réttu líkt og yfir­lýst mark­mið þáttanna er.

Líkur eru á að Matt James hafi tekið þessa mynd af Rachael í New York fyrir viku:

Þver­tekur fyrir ó­heiðar­leika en sætir gagn­rýni

Þá kemur fram í um­fjöllun US We­ekly að Matt James hafi alls ekki séð hlutina í sama ljósi og Rachael. Sam­band þeirra hafi verið orðið platónskt og alls ekki rómantískt, miðað við það sem miðillinn hefur eftir vinum James.

James hafi þvert á móti gert Rachael það ljóst að hann vildi einungis vera vinur hennar. „Matt er um­hyggju­ríkur og skilnings­ríkur, svo að hann myndi aldrei vilja al­farið úti­loka hana frá lífi sínu,“ segir vinurinn.

„Það virðist vera ein­hver alls­herjar mis­skilningur í gangi á milli þeirra,“ segir hann. Slíkar út­skýringar hafa þó ekki dugað öllum og hefur pipar­meyin Claire Crawl­ey sent Matt James pillu.

Hún endur­tísti tísti Twitter notanda sem rifjaði upp orð hennar um Matt James. Þar hafði hún varað við pipar­sveininum, að því er virðist. Þar minntist hún meðal annars á Ca­meo vef­síðuna, þar sem hægt er að borga stjörnum fyrir að fá send mynd­skila­boð.

„Ef þú ert mættur í við­töl og að búa til Ca­meo notanda áður en þú ert einu sinni mættur í seríuna mína...þá ertu í þessu af röngum á­stæðum...#ekki­eyða­tímanum­þínum,“ skrifaði hún í apríl 2020 um Matt James.

Hún varð hins­vegar að draga í land vegna hneykslaðra net­verja og sagðist ekki ein­göngu hafa átt við Matt James. Nú endur­deilir hún hins­vegar tístinu með bros­köllum.