Tónlist

Ólafur Kjartan Sigurðarson barítón söng uppáhaldstónlist sína. Bjarni Frímann Bjarnason lék á píanó.

Norðurljós í Hörpu

föstudaginn 19. mars

Fimm stjörnur

Maður á aldrei að hitta átrúnaðargoð sín. Það er ávísun á vonbrigði. Rithöfundurinn Pasternak dáði tónskáldið Skrjabín öðrum fremur. Loks fékk hann að hitta hann. Veröld hans hrundi til grunna þegar hann komst að því að Skrjabín var ekki með svokallað fullkomið tóneyra. Það er hæfileikinn til að muna tónhæð, það er að geta greint í hvaða tóntegund er sungið eða leikið, alveg hjálparlaust. Sú mýta gengur fjöllum hærra á netinu að allir tónsnillingar séu með þessa gáfu. Svo er ekki.

Annað tónskáld sem var ekki heldur með fullkomið tóneyra var Richard Wagner. Pasternak hefði örugglega orðið fyrir vonbrigðum við að hitta hann. Ekki bara út af skortinum á fullkomnu tóneyra, heldur líka af því að Wagner var fráhrindandi persónuleiki. Satt best að segja var hann algert kvikindi.

Óðinn bankar í fjallið

Þetta er furðulegt, því tónlistin hans er svo falleg. Á tónleikum Ólafs Kjartans Sigurðarsonar, barítón, í Norðurljósasalnum í Hörpu, var Wagner í öndvegi. Ólafur hefur líka vakið mikla athygli á erlendri grund fyrir túlkun sína á honum. Hápunkturinn á Wagner-veislunni var þegar Ólafur brá sér í gervi Óðins. Það var í atriði í hinum mikla fjórleik, Niflungahringnum, þegar hann refsar dóttur sinni fyrir eitthvað ægilegt. Hann sviptir hana guðdóminum og lætur hana falla í dvala á miðjum fjallstindi. Því næst bankar hann í fjallið, og við það kviknar vafurlogi sem aðeins sönn hetja getur komist í gegnum. Síðar kemur í ljós að það er Sigurður Fáfnisbani.

Í flutningnum á tónleikunum var ljósinu á veggjum Norðurljósasalnum breytt í rautt þegar vafurloginn kviknaði. Það var áhrifaríkt, eins og maður væri umluktur eldi. Svo undarlega vildi til að á akkúrat því augnabliki byrjaði að gjósa í Fagradalsfjalli. Mikill er máttur tónlistarinnar – eða goðanna.

Dálítið óhugnanlegt

Söngur Ólafs Kjartans var stórbrotinn. Röddin var mögnuð, í senn öguð og þróttmikil. Hápunktarnir voru tröllslegir, en samt var litróf tilfinninganna víðfeðmt; þar brá fyrir viðkvæmni líka. Bjarni Frímann Bjarnason spilaði á píanó, og leikur hans var fullur af snerpu og innlifun, tæknilega flottur og glæsilegur. Heildarútkoman var hástemmd, tignarleg og dálítið óhugnanleg í stærð sinni, eins og voldugt náttúruafl. Einmitt þannig á Wagner að hljóma.

Auk Wagners voru önnur tónskáld á dagskránni, fyrst og fremst Verdi. Rétt eins og Wagner lék hann í höndunum á Ólafi, og Bjarni var frábær líka. Hver einasta hending var prýðilega mótuð. Flæðið í tónlistinni var óheft og þrungið dramatískum átökum. Magnaðasta atriðið var líklega þegar Stuart Skelton, tenór, vatt sér óvænt upp á svið og söng með Ólafi dúett úr Ótelló. Hann var svo kraftmikill að maður hélt sér ósjálfrátt fast í sætinu og leitaði að bílbeltum. Þetta var ógleymanlegt.

Niðurstaða: Í stuttu máli sagt stórfenglegir tónleikar.