„Veitan á að vera aðgengileg hérlendis og erlendis og okkur fannst sniðugt að efna til nafnasamkeppni, þar sem verið er að miðla menningararfi okkar allra,“ segir Guðrún Helga Jónasdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndamiðstöð.
Tillögur skal senda á þessu vefformi, fyrir 1. maí. Tveggja manna dómnefnd fer yfir tillögurnar. Hana skipa Styrmir Sigurðsson kvikmyndagerðarmaður og Ari Páll Kristinsson hjá Árnastofnun. Guðrún Helga segir skipuleggjendur verkefnisins telja mikilvægt að dómnefndin sé skipuð sérfræðingi úr faginu auk sérfræðings í tungumálinu.
Aðspurð hvernig góð tillaga líti út, svarar hún að gott nafn gangi á ensku og íslensku og vísi til þess sem veitan standi fyrir.
Í gær voru hundrað tillögur komnar í púkkið og segir Guðrún Helga að leyfilegt sé að senda inn fleiri en eina.
„Það er gaman að renna yfir nöfnin sem hafa komið inn, þau eru mjög fjölbreytt,“ segir hún.