„Ég var að vonast til að einhver kona myndi komast í Kauphöllina á meðan tímaritið væri í prentun hjá Prentmeti Odda yfir helgina,“ segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), sposk á svip um forsíðuviðtal á FKA-Blaði sem leit dagsins ljós í gær. „Já, því miður náði engin að fokka upp forsíðunni. Það hefði verið alveg dásamlegt!“ segir Andrea og brosir enda stolt af tímaritinu.

Samkvæmt pappírum er tilefni til að hafa áhyggjur

„Konan með stóru K-i í Kauphöllinni er í forsíðuviðtali í glæsilegu FKA-Blaði sem kom út í gær. Forsíðuviðtalið er við Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem var um tíma eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi. Samkvæmt pappírum er tilefni til að hafa áhyggjur því engin kona er í slíku starfi í dag,“ segir Andrea sem bendir á að á meðan orðræða samfélagsins segir það eftirsóknarvert að vera stjórnandi, sérfræðingur eða fara fyrir skráðu fyrirtæki þá skiptir máli að konur eigi fulltrúa í þeirra röðum sem fyrirmyndir. „Á meðan að þessum klassískum karlastörfum fylgir vald þá skiptir það máli. Það sem meira er þá skiptir máli að völdin haldist þar einnig eftir að konur fá sína málsvara,“ segir Andrea.

Auglýsing um blaðið.

Fjölbreytileikinn er frelsandi

Í blaðinu eru viðtöl við þá sem eru leiðandi á sviði jafnréttismála á Íslandi, fjallað er um FKA konur um land allt og skautað yfir spennandi verkefni sem eru á döfinni hjá FKA á næstunni. „FKA-Blaðið 2020 verður sent í pósti til allra félagskvenna á landinu. Í því er jafnréttispúlsinn tekinn hjá fjölmörgum aðilum sem eru leiðandi afl á Íslandi og það er afar jákvætt að heyra í þeim er kemur að mikilvægi fjölbreytileikans, hve frelsandi hann er og mikilvægur," segir Andrea.

„En staðan er strembin víða á tímum COVID og hefur FKA því verið að vinna með þema sem er „Áfram og upp“. Þú getur aldrei lýst upp myrkur með myrkri og hugsunin á bakvið „Áfram og upp“ er sú að gangast við öllum tilfinningum sínum en vinna með hugarfar vaxtar og grósku í þessari vegferð. Hver félagskona er heill heimur útaf fyrir sig og það er ekkert skemmtilegra en að vekja athygli á starfi félagsins um land allt. Jú, annars það er eitt jafnskemmtilegt við starf mitt sem framkvæmdastjóri. Það er að þjónusta og eiga samtal við atvinnulífið og aðila sem eru með einlægan vilja að vera alvöru hreyfiafl,“ segir hún að lokum.

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu.