Einhver drungi hvílir yfir þriðju þáttaröðinni af The Crown. Kannski ekki einkennilegt. Allir eru svo miklu eldri en þeir voru í fyrri þáttaröðum og mun mæddari. Elísabetu drottningu stekkur vart bros, nema þegar hún er í kringum hesta. Filippus er alltaf með ákveðinn óánægjusvip, eins og maður sem veit fyrir víst að hann er ekki á réttum stað í tilverunni. Margrét prinsessa er síðan í stöðugri leit að afþreyingu en virðist alltaf leiðast jafn mikið. Í örvæntingu reynir hún að skandalísera og tekst það bærilega. Í sjötta þætti bættist svo við bældur og áberandi óhamingjusamur prins, Karl, sem foreldrunum virtist standa nokkurn veginn á sama um. Þannig lifa aðalpersónurnar innihaldslausu lífi, andlega ófullnægðar, lokaðar inni í höll og öðrum glæsibyggingum. Þjáningarsvipurinn sem færist yfir andlit þeirra með reglulegu millibili bendir til að þær þjáist af innilokunarkennd. Enda komast þær ekkert án lífvarða. Það eitt og sér nægir til að skapa þrúgandi tilveru.

Hin kæfandi leiðindi sem persónurnar búa við smitast af skjánum til áhorfandans. Um leið og hann vorkennir persónum fer hann að sakna glamúrsins sem var í fyrstu tveimur þáttaröðunum. Þar fannst persónunum allavega gaman að lifa, þótt ýmislegt væri þeim mótdrægt. Nú er eins og þær séu alltaf við það að gefast upp.

The Crown er samt góð afþreying. Aðdáendur missa ekki af þætti og ræða um persónur eins og séu þær náin skyldmenni. Í þeirri innlifun gleymist stundum að þótt persónur eigi sér raunverulegar fyrirmyndir þá er ansi margt í þáttunum skáldað, ekki síst það sem snýr að viðbrögðum persóna í einkalífi. Áhorfendum stendur að mestu á sama um það. Þeim finnst þeir hafa náð ákveðnum tengslum við konungsfjölskylduna. Þetta er bara mannlegt fólk og ekkert óskaplega hamingjusamt þótt það sé forríkt. Það er ekkert verra fyrir sjónvarpsáhorfendur. Venjulegu fólki sem þekkir blankheit finnst yfirleitt nokkuð huggunarríkt þegar ríkt fólk er hæfilega vansælt.