Alda Karen Hjalta­lín er þessa dagana á fullu við það að undir­búa þriðja Life Masterclass nám­skeið sitt sem hún mun halda í Hörpu þann 28. febrúar næst­komandi. Á síðasta ári seldist upp á nám­skeið Öldu sem fjallaði aðal­lega um and­lega heilsu og bar heitið „Þú ert nóg“. Alda sætti mikilli gagn­rýni í fjöl­miðlum í kjöl­far um­mæla sem hún lét falla í Ís­land í dag og Kast­ljósi og í við­tali við Frétta­blaðið segist Alda hafa lært mikið af þeirri reynslu.

Nú stefnir Alda á að koma tví­efld til baka með enn frekari reynslu í bak­pokanum sem hana hlakkar til að deila með Ís­lendingum. Að­spurð út í til­finninguna sem Alda upp­lifði þegar hún sá sjálfa sig tekna fyrir í Ára­móta­skaupinu í kjöl­far gagn­rýninnar viður­kennir Alda að það hafi verið mjög skrítið.

„Það var sjúk­lega súrrealískt að sjá sjálfa mig í skaupinu. Ég var búin að heyra af þessu þar sem ég þekki mikið af fólki í skemmtana bransanum eftir að ég starfaði á Saga Film. En ég var að ferðast á gaml­árs­dag og daginn eftir og er líka fimm tímum á eftir svo að ég var ekki búin að sjá Ára­móta­skaupið en fjöl­skylda mín sendi mér samt ein­hver mynd­bönd. Ég horfði svo loksins á það allt um daginn og mér fannst það fá­rán­lega fyndið. Hún Dóra náði mér svo ó­geðs­lega vel, stelpan gerði heima­vinnuna sína og hún var svo ó­trú­lega góð,“ segir Alda í við­tali við Frétta­blaðið.

„Það geta allir bætt sig alltaf, líka ég.“

Gagnrýnin það besta sem hefur komið fyrir hana

Alda segist alltaf hafa tekið gagn­rýni rosa­lega vel en viður­kennir þó að hún sé ekkert öðru­vísi en hver önnur manneskja.

„Gagn­rýnin sem ég sætti í fyrra kom aðal­lega vegna þess sem ég sagði í Ís­land í dag og Kast­ljósinu. Hún átti alveg rétt á sér og ég var al­gjör­lega sam­mála því sem var gagn­rýnt. Ef ég hefði í al­vörunni haldið að það að segja „þú ert nóg“ væri nóg fyrir svona stórt vanda­mál þá væri ég ekki að senda allan þennan pening í þessi for­varnar­sam­tök. Á endanum var þetta það besta sem gat komið fyrir mig, ég hefði aldrei selt upp án þess og ég er líka þakk­lát fyrir það að Ís­lendingar eru mjög gagn­rýnir. Það á að gagn­rýna fólk, við lærum mest á því. Gagn­rýni er mjög mikil­vægt tól fyrir okkur sem við eigum að nota til þess að bæta okkur. Það geta allir bætt sig alltaf, líka ég. Þannig að ég var mjög á­nægð með þetta en ég er líka mjög heppin að hafa gott fólk í kringum mig, gott stuðnings­net. Ég hef alltaf verið ó­trú­lega þakk­lát fyrir það. Ég er ekkert öðru­vísi en hver annar, ég settist niður og gerði vinnuna. Ég fór í gegnum gagn­rýnina, skrifaði hana niður og vann úr henni,“ segir hún.

Alda ræðir gagnrýnina á næsta fyrirlestri.
Mynd/Ernir

Alda segir komandi fyrir­lestur sinn vera þann stærsta hingað til, efnið sé allt nýtt og að hún hafi unnið margt af því sem hún kemur til með að ræða út frá gagn­rýninni sem hún varð fyrir.

„Það verður líka mikið af efni frá öðru fólki núna og ég held að þessi fyrir­lestur verði sá stærsti til þessa. Sér­stak­lega út af fólkinu sem er að koma og líka vegna þess að þessi fyrir­lestur er fyrir fólk sem þorir að hugsa stærra, þorir að hugsa út fyrir land­steinana,“ segir Alda og bætir við: „Ég var spurð að því um daginn af hverju ég kalla fyrir­lestrana Life Masterclass og það er vegna þess að ég vil hafa þetta opið. Ég byrjaði á því að halda fyrir­lestra um sölu og markaðs­setningu og það var svo tak­markandi af því að það er svo margt í því sem við kemur and­legri heilsu og svo fram­vegis. Við erum alltaf að markaðs­setja okkur. Sama hvort við séum að biðja um stöðu­hækkun í vinnunni, kynna ein­hverja hug­mynd eða þegar við eignumst nýja vini. Við erum alltaf að koma okkur á fram­færi á ein­hvern hátt. Nafnið Life Masterclass hefur gefið mér það rými sem ég þarf til þess að tala um það sem fólkið í kringum mig og fólkið sem kemur á fyrir­lestrana vill heyra.“

Stolt af því að hafa opnað umræðuna um andlega heilsu

Á fyrir­lestrinum sem Alda hélt á síðasta ári var and­leg heilsa mikið rædd. Segist hún vera virki­lega á­nægð með um­ræðuna sem myndaðist í kjöl­farið.

„Við störtuðum því svo­lítið að ræða opin­ber­lega um and­lega heilsu og ég er mjög stolt af því að hafa verið partur af þeirri um­ræðu þó svo að ég hafi ekki endi­lega verið í því hlut­verki sem ég hefði viljað vera. En ég var þó alla­vegana í hlut­verki og að hafa verið partur af um­ræðu um mikil­vægi and­legrar heilsu og mikil­vægi þess að afla sér upp­lýsinga og sinna sjálfum sér, það fyrir mér er stærsti sigurinn. Það að ég hafi náð að horfa á gagn­rýnina þannig er ó­trú­legt og ég veit að mamma er rosa­lega stolt af mér. Margir hefðu brotnað niður og hætt og þar sem ég bý í New York þá hefði ég alveg getað tekið á­kvörðun um að koma aldrei aftur heim, en ég er ekki að gera þetta til þess að fólki líki vel við mig. Ég er að gera þetta til þess að hjálpa öðrum að koma sér á fram­færi,“ segir hún.

„Ég ætla að út­skýra ná­kvæm­lega hvernig hugar­far mitt var fyrir, á meðan og eftir Kast­ljós.“

Að­spurð segist Alda hik­laust hafa tekið meira já­kvætt út úr gagn­rýninni og viður­kennir hún að í kjöl­farið hafi hún lært mikið af mis­tökum sínum.

„Ég ætla að koma með það allt á Life Masterclass 3 og ég ætla að út­skýra ná­kvæm­lega hvernig hugar­far mitt var fyrir, á meðan og eftir Kast­ljós. Ég held að margir geti lært af því vegna þess að það eru margir sem vilja koma sér á fram­færi en eru hræddir um að eitt­hvað svipað geti gerst fyrir þá. Það minnsta sem ég get gert er að deila þessu öllu með þeim, hvað ég lærði og gerði. Með því getur fólk lært bæði af mínum mis­tökum og því sem ég gerði vel.“

Einn dýrasti sálfræðingur heims á fyrirlestrinum

Á fyrir­lestrinum segist Alda vera með þrjá fræga gesta fyrir­lesara sem hún er virki­lega spennt fyrir að kynna fyrir Ís­lendingum.

„Þemað í ár er: „Komdu þér á fram­færi“ og gestir mínir munu fara yfir hvað það er sem þær gerðu rétt og rangt til þess að koma sér á fram­færi í sinni grein. Guada Stewart er grafískur hönnuður fyrir heims­frægar raun­veru­leika­stjörnur og tón­listar­menn, hún mun fara yfir það hvernig hún fór frá því að þekkja engan í það að þekkja alla. Emily Knesevitch starfar við það að upp­götva nýja tón­listar­menn og koma þeim á samning hjá At­lantic Records út­gáfu­fé­lagi en hjá þeim eru meðal annars Ed Sheeran, Lizzo, Mis­sy Elliot og fleiri. Síðan verður Ma­risa Peer sem var kosin besti sál­fræðingur Bret­lands árið 2018 með fyrir­lestur um „þú ert nóg“ en hún er einn dýrasti sál­fræðingur heims. Að lokum kemur S­yd­n­ey Lai eig­andi SQU­AD Ventures sem er við­skipta­hraðall sem hefur fengið yfir 4.320.000.000 milljónir ís­lenskra króna frá fjár­festum fyrir frum­kvöðla á síðustu tveimur árum.

Alda vill deila reynslu sinni með öðrum.
Mynd/Ernir

Nám skiptir engu máli en ástríða öllu

Það vakti mikla at­hygli á dögunum þegar Alda aug­lýsti eftir starfs­fólki á markaðs­ráð­gjafa­stofu sína í New York en á síðasta ári sprakk reksturinn út og hefur Alda haft nóg á sinni könnu.

„Ég rek markaðs­ráð­gjafa­stofu hérna úti í New York og á síðasta ári fékk ég rosa­lega stórt verk­efni sem gerði það að verkum að ég hef haft nóg að gera. Ég ætla því að ráða inn þrjá nýja starfs­menn núna í janúar og á­kvað að aug­lýsa líka á Ís­landi. Mér finnst ís­lenskt hugar­far gagn­vart vinnu svo geggjað, við erum svo ó­trú­lega góð í því að „deli­vera“ og ég væri alveg til í að fá Ís­lending með mér í teymið hérna úti og sigra heiminn. Það væri ó­trú­lega skemmti­legt,“ segir Alda.

At­vinnu­aug­lýsing Öldu vakti sér­staka at­hygli vegna þess að hún bað sér­stak­lega um um­sækj­endur með mikla ást­ríðu fyrir starfi sínu en tók það fram að nám skipti hana engu máli. Þá gaf hún út að launin væru frá rúmlega 6 milljónum króna á ári til rúmlega 8,5 milljónir króna.

„Ég er bara opin fyrir öllu, það er kannski ein­hver þarna úti sem að hefur mögu­lega ekki menntað sig en er brjál­æðis­lega klár í markaðs­setningu og þá er ég með mjög stór og opin eyru,“ segir Alda.

Fékk frítt út að borða

Alda flutti ný­lega frá Man­hattan, þar sem hún hefur búið undan­farið ár, til Brook­lyn þar sem hún býr nú með bestu vin­konum sínum í stórri íbúð.

„Ég vildi ekki búa ein lengur, mér fannst það leiðin­legt, þannig að við fluttum allar inn saman og það er búið að vera yndis­legt. Við tölum oft um að við séum svona valin fjöl­skylda sem er æði. Við erum tuttugu og tvær saman hérna í svona stóru hóp­spjalli og erum mjög krútt­leg sam­kyn­hneigð fjöl­skylda. Við erum allar rosa­lega góðar vin­konur og þær horfðu meðal annars á Ára­móta­skaupið með mér. Núna halda þær allar að ég sé sjúk­lega fræg og gera grín að mér alla daga,“ segir Alda og hlær.

„Það besta sem Ára­móta­skaupið gaf mér er eigin­lega ó­trú­lega fyndið. Við fórum allar út að borða um daginn og þær voru að gera grín að mér en stærsti brandarinn í vina­hópnum þessa dagana er að spyrja alla hvort þeir hafi hitt mig. Þetta fór svo þannig að þær sann­færðu þjóninn um að ég væri fræg og fóru að sýna honum mynd­bandið úr Ára­móta­skaupinu. Að lokum fengum við svo allar að borða og drekka frítt út á þetta,“ segir Alda á­nægð.