Listakonan Margrét Erla Júlíusdóttir vann alþjóðlega listaverkasamkeppni sem var haldin í tilefni af degi íslenska hestsins og tók við verðlaununum í sendiráði Norðurlandanna í Berlín fyrr í mánuðinum. Margrét er afkastamikil listakona sem málar mikið af fallegum náttúrulífsmyndum, fyrst og fremst innblásnum af íslenskri náttúru.

„Ég tók þátt í alþjóðlegri listaverkasamkeppni sem haldin var af Horses of Iceland, Íslenska sendiráðinu og I.P.Z.V. (Islandspferde-Reiter-und Züchterverband.e.V.) í tilefni af degi íslenska hestsins sem var 1. maí,“ segir Margrét. „Dagurinn er að jafnaði haldinn hátíðlegur víðs vegar um heiminn, en vegna COVID-19 féllu öll hátíðarhöld niður og því var ákveðið að halda listaverkakeppni í staðinn, en keppt var í þremur flokkum, barna-, unglinga- og fullorðinsflokki.“

Vegleg verðlaun í boði

„Keppendur voru látnir gera listaverk af íslenska hestinum í íslenskri náttúru, taka mynd af verkinu og senda hana í keppnina. Þar sem íslenski hesturinn er mitt aðalviðfangsefni fannst mér tilvalið að taka þátt, en rúmlega 450 verk voru send inn frá sextán löndum,“ segir Margrét.

„Dómnefnd valdi svo tólf bestu verkin og þau verða sett á dagatöl fyrir árið 2021 og ég fékk þann heiður að lenda í fyrsta sæti með verkið mitt Í landi álfa og ævintýra,“ segir Margrét. „Listamönnunum sem gerðu þessi verk var svo boðið á verðlaunaafhendingu í norræna sendiráðinu í Berlín, þar sem okkur var boðið í mat og drykk og við tókum við verðlaunum.“

Næstum allir vinningshafarnir mættu á verðlaunaafhendinguna og keppnin fékk stuðning úr ýmsum áttum svo það var hægt að gefa vinningshöfunum vegleg og fjölbreytt verðlaun, en Margrét fékk gjafabréf frá Icelandair og átta daga útreiðartúr með Eldhestum í verðlaun.

Á heima í sveitinni

„Ég er fædd og uppalin í sveit á Snæfellsnesi og dýr, sérstaklega hestar, hafa verið mér hugleikin alla ævi. Mamma er að rækta hesta og ég eignaðist fyrsta hestinn fimm ára og hef átt hesta síðan,“ segir Margrét. „Amma og afi bjuggu líka í sveit og foreldrar mínir, sem eru skilin, búa hvort á sínum sveitabænum. Þannig að í sveitinni á ég heima.“

Margrét hefur málað í rúman áratug en segist hafa fundið sinn stíl fyrir þremur árum. „Mig langaði að vera öðruvísi og hafa auðþekkjanlegan stíl þannig að fólk myndi strax þekkja verkin mín,“ segir hún. „Mér fannst ég ná því fyrir um þremur árum og þá byrjaði ég líka að selja myndirnar mínar. Ég hef haldið nokkrar sýningar, bæði hér á Íslandi og í Svíþjóð, og í nóvember fæ ég fast pláss í Gallery Grásteini á Skólavörðustíg, sem er mjög spennandi og gaman. Þetta er komið á þann stað að ég get lifað af listinni, sem er auðvitað bara draumur.“

Þakklát mörgum

„Ég er alveg yfir mig hamingjusöm yfir þessu öllu saman,“ segir Margrét. „Ég er þakklát dómurunum sem völdu verkið mitt, þakklát manninum mínum, Ástþóri, fyrir að gera alla mína drauma að veruleika og dætrum mínum, Ástu Björk og Katrínu Lísu, fyrir að vera dásamlegar. Ég er líka þakklát henni Björk Rúnarsdóttur, vinkonu minni, fyrir að koma frá Vínarborg þar sem hún býr til að hitta mig og vera með mér í Berlín.“

Þeir sem vilja fylgjast með Margréti geta gert það í gegnum Facebook-síðuna hennar, M.J. ART.

Margrét tók við verðlaununum í sendiráði Norðurlandanna í Berlín fyrr í mánuðinum.
Alls voru tólf verk valin úr þeim rúmlega 450 verkum sem voru send inn, fjögur í hverjum aldursflokki.
Margrét gerði sér ferð til Berlínar til að taka við verðlaununum.