Ég hef alltaf haft mikla þörf til þess að skapa, auk þess sem flestir í fjölskyldunni minni starfa í tónlist. Þau hafa öll verið mér mikill innblástur og þegar ég rataði inn í tónlistarnám sem krakki þá var ekki hreinlega ekki aftur snúið, segir Sævar Helgi Jóhannsson, sem gengur alla jafna undir listamannsnafninu S.hel. Hann gaf út plötuna Disconnect núna í lok mars.

Víðtæk reynsla

Hann segist hafa nokkuð fjölbreytta reynslu þegar það kemur að tónlistinni.

„Ég hef til að mynda verið í hljómsveitum, spilað inn á tónlist annarra, útsett óperu fyrir rokkhljómsveit, samið tónlist fyrir ýmis verkefni á borð við stuttmyndir, dansverk, leikhús og spilað með kór. Draumurinn væri að semja tónlist fyrir kvikmyndir, þætti eða leikhús í framtíðinni,“ segir hann.

Sævar segist vera frekar róleg týpa almennt.

„Ég er að klára BA-gráðu í tónsmíðum við Listaháskólann í vor og er ásamt því að kenna á píanó við Tónlistarskóla Sandgerðis. Ég nýt þess að fara á tónleika eða í leikhús og finnst einstaklega gaman að dansa Lindy hop eða fara á Mánudjass.“

Smellpassaði

En hvernig kom samstarf hans með Whitelabrecs til?

„Tónlistarmaðurinn Mikael Lind benti mér á plötuútgáfuna og ég sendi þeim fyrirspurn með ákveðinn útgáfudag í huga, 28. mars. Það er alþjóðlegi píanódagurinn. Útgáfan sagðist aðeins gefa út á laugardögum og væri með langt plan fram í tímann. En svo bættu þau við að annar listamaður hefði forfallast einmitt á þessum degi og 28. mars væri einmitt laugardagur svo þetta smellpassaði,“ segir Sævar.

Sævar leitaði inn á við þegar hann samdi plötuna.

„Þessi plata endurspeglar vangaveltur um einmanaleika og hvernig við upplifum sjálfið í tengslum við staði. Skiptir staðsetning uppruna yfirhöfuð máli? Einnig fjallar tónlistin um einmanaleikann sem að myndast í samfélagi sem er búið að týna sér í amstri dagsins.“

Plötuhönnun var í höndum þeirra Söruh Mariu Yasdani og Rakelar Ýrar Stefánsdóttur.

„Þær framleiddu einnig og leikstýrðu tónlistarmyndböndum sem munu fylgja plötunni. Konseptið þeirra vinnur hönd í hönd við músíkina og þemað.“

Útskrift í vændum

Sævar er nú búinn að færa sig yfir í fjarkennsluna í Tónlistarskólanum í Sandgerði, þar sem hann kennir.

„Ég er enn svolítið að ná tökum á fjarkennslu en ég er mjög þakklátur fyrir hvað fólk sýnir mikinn skilning og þolinmæði á þessum tímum. Annars er ég bara á fullu að klára lokaritgerð og svoleiðis fyrir LHÍ og held mér að mestu leyti heima á meðan á þessu stendur,“ segir hann.

Sævar hefur í nógu að snúast

„Ég er að einbeita mér að því að útskrifast úr LHÍ og svo tekur við samstarfsverkefni með tónlistarmanninum Mikael Lind. Síðast en ekki síst mun ég spila á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember.

Plötuna Disconnect eftir S.hel er hægt að nálgast á öllum helstu streymiveitum.