Mamma sagði alltaf að það væri enginn vandi að gera abstrakt strik en sannleikurinn er sá að það er ógeðslega erfitt og meira en að segja það,“ segir myndlistarkonan Björk Tryggvadóttir. Hún er jafnframt hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og brjóstagjafarráðgjafi.

„Ég hef alltaf verið með puttana í að fikta í málningu. Ég fór fyrst á námskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlistarskólanum í Kópavogi þar sem kenndu kennarar frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Þeir hvöttu mig til að mennta mig á listasviði skólans og þegar börnin mín þrjú voru komin aðeins á legg lét ég slag standa og lauk því námi. Ég sótti líka um í Mynd- og handíðaskólanum, um leið og Þuríður Sigurðardóttir söngkona en okkur var sagt að við kæmumst ekki inn út af kennitölunni. Skólastjórinn bætti við að ef einn nemandi hætti við kæmist annar að og Þuríður komst inn. Svona voru tímarnir þá, en þeir hafa sem betur fer breyst. Ég vildi ekki heldur fara utan til náms með þrjú börn en ég hef alla tíð fengið mikinn stuðning og hvatningu í myndlistinni frá manninum mínum og fjölskyldunni og eitt hefur leitt af öðru.“

Björk málar smáatriði úr íslenskri náttúru. Hér málaði hún mosa, lyng, blóm og steina sem hún sá í kringum sumarhús sitt.

Málað í sátt við náttúruna

Björk málar bæði abstrakt verk og fígúratíf.

„Það er svo gaman og afstressandi að mála. Maður hverfur inn í eigin heim fyrir framan trönurnar, skilur eftir sig áhyggjur daglegs lífs og vandamál heimsins hverfa,“ segir Björk innan um heillandi málverk á vinnustofu sinni í Garðabæ.

„Ég byrjaði að mála með vatnslitum, sem er erfiðasta efnið að vinna með því maður strokar ekki út vatnsliti. Svo færði ég mig yfir í olíuna en er nú komin yfir í akrýlliti eftir að hafa sótt námskeið hjá bandarískum listamönnum. Þar liggur græn hugsun að baki, akrýllitir innihalda síður eiturefni og Bandaríkjamenn nota líka vatnsleysanlega olíuliti án eiturefna. Þetta er efst á baugi nú, það vill enginn vinna náttúrunni mein í sköpunarferlinu og nú mála ég mikið á spýtur og gróf efni sem ég rispa upp og endurvinn.“

Björk hefur komið inn á ótal heimili ungs fólks með nýbura í starfi sínu sem ljósmóðir. Hún segir sláandi hvað heimili þeirra eru lík. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Komin eru fimm ár síðan Björk fór fyrst vestur um haf til að sækja myndlistarnámskeið hjá mikilsmetnum listamönnum í Ameríku.

„Þá þótti ég klikkuð að æða þetta út ein og mömmu leist ekkert á það og hélt að ég yrði skotin á næsta götuhorni,“ segir Björk og hlær við. „Maður fær hins vegar mikið upp úr því að sækja slík námskeið. Það heldur manni við og opnar augu manns og ég vil gjarnan sækja áhrif annars staðar frá. Ég reyni að sækja innblástur í náttúruna og svo litapallettuna þegar ég mála abstrakt,“ segir Björk og hvetur til meira sjálfstæðis, bæði hjá listamönnum í sinni listsköpun sem og landsmönnum þegar kemur að því að velja list og skreyta heimili sín..

„Fólk þarf að þora að elta það sem því þykir fallegt. Eða eins og bandaríska listakonan og sálfræðingurinn Nancy Hillis sagði á námskeiði sem ég sótti og hét „Trust in yourself“. Hún sagði: „Treystu á sjálfan þig og gerðu það sem þú vilt gera. Farðu daglega á vinnustofuna og krotaðu minnst eitt strik til að nærast á listinni.“ Það hefur haft mjög sterk áhrif á mig,“ segir Björk.

Í ljósmóðurstarfinu hefur hún farið inn á ótal heimili ungs fólks með nýfædd börn.

„Þá hefur slegið mig að koma á hvert heimilið á fætur öðru sem er nær nákvæmlega eins, þar sem var röndóttur vasi, réttu kertastjakarnir og viss ljós. Mér finnst áhrifavaldar á Instagram virkilegir skaðvaldar. Við reynum að ala upp börnin okkar til að verða sjálfstæð en þau verða ekki sjálfstæð fyrir fimm aura ef þau apa allt upp eftir öðrum og láta áhrifavalda segja þeim hvernig smekkurinn og heimilið á að vera.“

Fagurt abstraktmálverk eftir Björk.

Listaheimurinn hefur opnast

Björk er í myndlistarfélögunum Grósku í Garðabæ og Litlu Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í samsýningum hér heima og eftir að hún fór að stunda námskeiðahald í Bandaríkjunum hafa henni opnast margar dyr til sýningarhalds þar, meðal annars í Pennsylvaníu, Georgíu og New York.

„Ég þekki orðið mikið af myndlistarfólki vestra og finn að það er fylgst með manni þaðan. Í lok mars verð ég með abstrakt-málverk í Georgíu, en Ameríkanar eru ofboðslega hrifnir af abstrakt, og ekki síst unga fólkið, eins og hér heima. Mér var einnig boðið að taka þátt í komandi Van Gogh-sýningu ytra en komst ekki til þess að taka þátt að þessu sinni,“ upplýsir Björk.

Hún er nýbyrjuð á námskeiðinu Art2Life hjá bandarísku listamönnunum Nicholas Vilton og Alice Sheridan.

„Það er rosalega flott námskeið með Zoom-kennslu, viðtölum, gagnrýni og verkefnaskilum; hörkunám á meðan á því stendur. Mér finnst frábært hvað myndlistarmenn geta spreytt sig um veröld víða í dag, og mikið framboð er af frábærum námskeiðum og ekki síst eftir COVID, þegar heimurinn hefur allur opnast í gegnum netið.“

Hægt er að skoða málverk Bjarkar apolloart.is og Instagram: @bjorktry_art