Útrásarpartíið var í blússandi gangi þegar Bubbi Morthens seldi tryggingafélaginu Sjóvá-Almennum höfundarréttinn á öllum verkum sínum fyrir tugi milljóna króna.

Þessi óvænta ákvörðun Bubba lagðist misvel í fólk og Valur Gunnarsson, sem þá var ritstjóri Reykjavik Grapevine, ákvað að efna til nokkuð sérstakra mótmæla þegar hann fór með tuttugu Bubba-plötur úr safni sínu og jarðaði þær á planinu þar sem frystihúsið Ísbjörninn hafði áður staðið.

Fréttablaðið var á staðnum í mars 2005 þegar Valur bar Buppa-plöturnar sínar til hinstu hvílu á planinu þar sem Ísbjörninn stóð áður.
Fréttablaðið/Samsett

Frystihúsið var vitaskuld, eins og alþjóð veit, Bubba kröftugt yrkisefni á fyrstu plötunni sinni, Ísbjarnarblús, og auk þess að bera plöturnar þar til moldar lagði Valur hvíta rós ofan á þær „til minnis um listamanninn Bubba Morthens sem illa fór fyrir“, eins og hann orðaði það í samtali við Fréttablaðið á sínum tíma.

„Einhver varð að reyna að stoppa Góðæris-Bubbann í okkur öllum af,“ segir sagnfræðingurinn, rithöfundurinn og blaðamaðurinn, þegar hann lítur um öxl með Fréttablaðinu sextán árum síðar.

„Auðvitað gerir það lítið gagn til lengdar að jarða nokkrar Bubbaplötur, en þegar Bubbi var endanlega kominn á bankanna vald fannst mér eins og vegið væri nokkuð nálægt sál þjóðarinnar. En kannski var ég að misskilja bæði Bubba og þjóðina.“

Breyttir tímar

Valur hefur í seinni tíð rýnt meira í sálir þeirra þjóða sem á sínum tíma mynduðu Sovétríkin sálugu og hann gerði nýlega góða grein fyrir mannlífsrannsóknum sínum handan gamla járntjaldsins í bókinni Bjarmalönd.

Geisladiskasafn Vals komið í gröfina en hann segist ekki sakna þeirra sérstaklega enda innihaldið orðið aðgengilegt stafrænt.
Fréttablaðið/Vilhelm

Járntjaldið stóð hins vegar óhaggað þegar Bubbi braust til frægðar og ungur Valur eygði enn von í rokkinu. „Í mína tíð trúði enginn á neitt en rokkið skipti máli og átti ekki að vera til sölu.

Nú trúa allir á eitthvað, nema kannski rokkið, og allir eru að „plögga“ eins og þeir best geta og hafa tekjur þar sem það er hægt, enda ekki annað hægt á tímum þar sem plötur eru varla lengur til og tónleikahald meira og minna bannað. Þetta eru breyttir tímar.“

Gengisfallið gúanó

Valur gekk svo langt að segja Bubba hafa selt sál sína þegar hann undirritaði það sem þá var kallað „tímamótasamningur“ við þá Þorgils Óttar Mathiesen, forstjóra Sjóvár, og Bjarna Ármannsson, sem var forstjóri Íslandsbanka.

„Hann gerði það reyndar fyrir löngu, en núna hefur hann dæmt allt marklaust sem hann hefur sagt í gegnum tíðina. Öll hans vinna fer beint í vasa tryggingafyrirtækis sem þýðir endanlegan sigur jakkalakka yfir gúanórokkaranum.

Valur reyndi að stöðva Góðæris-Bubbann í okkur öllum með táknrænni útför.
Fréttablaðið/Vilhelm

Ég hef verið aðdáandi Bubba lengi og maður hefur fyrirgefið honum ýmislegt en nú er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens endanlega búinn,“ sagði Valur við Fréttablaðið laugardaginn 5. mars 2005.

Frelsi til sölu?

„Minn Bubbi er eiginlega rokkstjörnu-Bubbi miðáttunnar,“ segir Valur og kemur ef til vill ekki mjög á óvart, þegar hann er spurður hvaða birtingarmynd Bubba sé í mestu uppáhaldi hjá honum.

„Ég bjó þá í Noregi og nemendur máttu stundum koma með spólur í skólann til að hlusta á. Ég kom iðulega með Frelsi til sölu, sem vakti litla lukku norskra, en einhver spurði fyrir kurteisissakir hvað margir væru í þessari hljómsveit Bubba.“

Fréttablaðið/Vilhelm

Bubbi keypti höfundarréttinn á lögum sínum aftur til baka frá Straumi fjárfestingarbanka 2012 og núna, enn síðar, má segja að dragi enn til tíðinda eftir að Fréttablaðið fékk Val til þess að horfa á sýninguna Níu líf í Borgarleikhúsinu.

Þar túlka ólíkir leikarar Litla-Bubba, Unga-Bubba, Gúanó-Bubba, Utangarðs-Bubba, Egó-Bubba, Góðæris-Bubba og Sátta-Bubba, sem saman mynda margbrotna og síkvika persónu Bubba Morthens í meðal annars góðærisuppgjöri, sem Valur er sáttur við.

„Þessi sýning er eiginlega ótrúlega vel heppnuð, það er svo margt sem hefði getað farið úrskeiðis en hér tekst listilega vel að sigla á milli Blindskers og Brynju,“ segir Valur.

„Þegar fjallað er um mann sem allir þekkja getur það auðveldlega orðið að helgimynd, eða í hina áttina að niðurrifi. Í staðinn birtist mynd af afar breyskum manni sem er, í það minnsta stundum, að gera sitt besta. Það er kannski ekki mikið hægt að læra af Bubba, en það er hægt að þykja vænt um hann og varla er annað hægt að sýningu lokinni.“

Ísland mun aldrei eignast aðra eins rokkstjörnu, enda er tími rokkstjörnunnar sem slíkrar liðinn. Í staðinn fyrir kókaín í hylki og gullplötur er það sojalatte og streymisveitur. Bubbi verður auðvitað aldrei svalari en hann var í upphafi, en ég myndi frekar vilja hitta Sátta-Bubba í dimmu húsasundi heldur en Utangarðs-Bubba.“