Síminn er aðeins meira farinn að hringja. Í kvöld verð ég í Garðabæ til dæmis,“ segir Valdimar Guðmundsson söngvari, sem stendur við hljóðnemann ásamt Erni Eldjárn í Sjálandi, nýjum veitingastað í Garðabæ þar sem útsýni er út á Skerjafjörðin.

Valdimar og Örn lögðu land undir fót í júní og spiluðu meðal annars á Hvolsvelli, í Berufirði í beinni útsendingu á þjóðhátíðardaginn á Rás 2, í Beituskúrnum á Neskaupstað og á Dalvík, áður en þeir enduðu á Vestfjörðum.

„Þetta var skemmtilegur túr. Mér fannst svolítið eins og fólkið væri orðið dálítið tónleikaþyrst og til í þetta. Túrinn byrjaði á Paddy´s í Keflavík eins og síðasti túr. Það er voðalega gaman að spila þar enda þykir mér vænt um staðinn,“ segir Valdimar, en hljómsveitin Valdimar sleit þar barnsskónum forðum daga.

Í Berufirði var slegið í klárinn í beinni útsendingu á Rás 2, en þar ráða ríkjum hjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem Prins Póló. „Þau eru yndisleg bæði tvö. Það er alltaf gaman að spila þarna og mikil stemning. Maður fær alltaf auka fiðring í magann þegar þetta er í beinni útsendingu.“

Á Akureyri spiluðu þeir félagar á Græna Hattinum, sem Valdimar segir að sé töfrum líkast að spila á. „Það er einhver galdur við staðinn og einhver stemning sem myndast og mjög gaman að spila þarna.

Þegar við komum til Akureyrar var alveg rosalega heitt og eiginlega eins og að koma til útlanda. Það var ótrúlegt veður þennan dag sem við spiluðum. Bærinn var alveg stútfullur af fólki og það var mikið líf í bænum. Og giggið var gott, troðfullt hús og mikið stuð.“

Eftir tónleika á Grána á Sauðárkróki keyrðu þeir félagar til Flateyrar, sem er rúmlega sex tíma akstur. „Við keyrðum þetta saman. Kærastan mín var þarna komin og við lögðum snemma af stað og vorum í góðum gír á þjóðveginum. Það var gott veður og í útvarpinu hljómuðu lagalistar frá Spotify. Við vorum með nokkra leiki í gangi. Pæla hvaða lög voru með bestu bassalínuna og besta trommusólóið svo fátt eitt sé nefnt. Bjuggum til leiki til að stytta okkur stundir.“

Valdimar segir að hann sé búinn að hafa það náðugt síðan túrnum um landið lauk. „Það er aðeins að bæta í, enda voru mars, apríl og maí erfiðir enda lítið að gera þannig við mætum ferskir í Sjálandið. Við tökum oftast þessi þekktari lög sem ég hef sungið með hljómsveitinni, svo erum við að taka okkar uppáhaldslög, erlend sem innlend. Þetta er blandað og skemmtilegt prógramm,“ segir söngvarinn.

Það eru fáir betri með míkrófóninn en Valdimar. Hér fyrir utan Klepp í miðj­um COVID-storminum að stytta fólki stundir. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari