Umhverfi er önnur bókin í bókaflokknum Vísindalæsi eftir Sævar Helga Bragason með myndum eftir Elísabetu Rún en í fyrra sendu þau frá sér bókina Sólkerfið.

„Þessi bók er öðruvísi en aðrar bækur sem fjalla um umhverfismál. Í henni er áherslan á að segja sögur af fólki sem bjargaði mannkyninu frá sjálfu sér. Vísindafólki sem uppgötvaði hvað við vorum að eyðileggja og hvernig okkur tókst svo að leysa vandann,“ segir Sævar.

Á meðal þeirra sem fjallað er um í bókinni eru dýrafræðingurinn Rachel Carson sem skrifaði bókina Raddir vorsins þagna, sem leiddi til þess að reglur voru hertar um notkun skordýraeiturs, og vísindamaðurinn Clair Patterson sem uppgötvaði hættuleg áhrif blýmengunar.

„Í bókinni er líka fjallað um loftslagsbreytingar. Í stað þess að segja krökkum að þeir verði að gera hitt og þetta, eru þeir einfaldlega hvattir til þess að fræðast og nýta áhrif sín með því einfaldlega að tala um vandann, en sérstaklega lausnirnar við fullorðna fólkið,“ segir Sævar.

Næsta kynslóð miklu betri

Að sögn Sævars Helga skrifaði hann bókina til að valdefla börn og hjálpa þeim að takast á við loftslagskvíða.

„Ég hitti stundum krakka og finn það á þeim að þeir kvíða svolítið fyrir framtíðinni. Ég held það sé bara einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki fengið nægilega mikla fræðslu og hafa heldur ekki fengið nægilega mikla fræðslu um þær lausnir sem verið er að vinna að.“

Sævar Helgi, sem titlar sig vísindamiðlara, hefur unnið ötullega að því undanfarin ár að fræða börn og unglinga um umhverfismál og vísindi. Spurður um hvort honum finnist krakkar í dag vera meðvitaðir um þessa hluti segir hann:

„Ég er sannfærður um að næsta kynslóð sé miklu betri heldur en nokkurn tíma kynslóðin okkar. En þau upplifa mörg hver samt sem áður einhvers konar vonleysi og finnst lítið vera að gerast. Það er satt að mörgu leyti en eina leiðin til þess að laga það er að leysa vandann og við höfum frábær dæmi úr sögunni þar sem okkur tókst það.“

Fyllsta ástæða til áhyggja

Eins og áður sagði er bókinni ætlað að auka vísindalæsi hjá börnum. Spurður um hvort honum finnist vísindalæsi vera ábótavant hér á landi segir Sævar Helgi:

„Já, ég finn alveg áberandi fyrir því að vísindalæsi er ekkert sérstaklega gott og þessar bækur eru þar af leiðandi ekkert síður fyrir fullorðna fólkið. Ég hef heyrt frá foreldrum að krakkarnir þeirra séu að lesa bækurnar fyrir mömmu og pabba.“

Hvað myndirðu segja við fólk sem upplifir vonleysi gagnvart loftslagsbreytingum?

„Það er alveg fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur en eina lækningin gegn því er að reyna að laga vandamálið. Við getum gert ótrúlega margt upp á eigin spýtur sem dregur ekki úr lífsgæðum okkar heldur eykur þau. Gerir lífið bókstaflega betra og ódýrara. En svo er náttúrulega líka mikilvægt að tileinka sér allar þessar lausnir sem verið er að vinna að sem eru úti um allt,“ segir Sævar Helgi að lokum