„Þetta er bara vilja­styrkur, það er ekkert annað,“ segir Frið­rik Ottó Frið­riks­son, 47 ára Breið­hyltingur, sem hefur náð eftir­tektar­verðum árangri að undan­förnu í bar­áttunni við auka­kílóin. Tvö ár eru síðan Frið­rik byrjaði á ketómatar­æðinu og síðan þá hefur hann lést um 64 kíló. Um tíma var hann kominn í um 178 kíló en í dag er hann í kringum 112-114 kíló.

Frið­rik hefur glímt við of­fitu nær öll sín full­orðins­ár og viður­kennir að hann hafi um tíma verið á góðri leið með að enda í gröfinni. „Ég var bara að drepa mig. Þetta var bara rugl. Ég þambaði kók og borðaði á nóttunni. Svo var ég með allt of háan blóð­þrýsting í mörg ár og með höfuð­verk á hverjum einasta degi.“

Heila­blóð­fall á pizza­stað

Rétt rúm tvö ár eru síðan Frið­rik var að borða á pizza­staðnum Eld­smiðjunni þegar hann fékk ein­kenni­lega til­finningu í líkamann og dofnaði upp hægra megin. Síðar kom í ljós að hann hafði fengið heila­blóð­fall þó læknar teldu það úti­lokað í fyrstu.

„Ég fer með unnustunni á spítalann og þá greina þeir mig með sykur­sýki II og út­skrifa mig nánast strax í kjöl­farið. Svo fer ég á sykur­sýkis­deildina og pressa á að komast í heilaskanna, en aftur er ég sendur heim,“ segir Frið­rik sem fór svo í þriðja sinn á sykur­sýkis­deildina. Þar talaði hann við lækni og lýsti ein­kennum sínum. Læknirinn talaði við tauga­lækni og þá fyrst var hann tekinn í al­menni­lega rann­sókn og heilaskanna.

„Þá greinist ég með blæðingu inn á heila. Pældu í því. Ég var bara að háma í mig pizzu og kók þegar þetta gerðist,“ segir hann.

Það var í byrjun árs 2019 að Friðrik fékk þau tíðindi að blætt hefði inn á heila. Hér er hann í einni af mörgum heimsóknum sínum á Landspítalann.
Mynd/Úr einkasafni

Frið­rik áttaði sig á að hann þyrfti að grípa til rót­tækra breytinga í lífs­stíl sínum og var það heimilis­læknirinn hans, Egill Sigur­geirs­son, sem mælti með því að hann prófaði ketó.

„Það eru ekki allir læknar sem mæla með þessu en þetta virkar fyrir suma og ég tók þessu mjög al­var­lega. Blóð­sykurinn var í hæstu hæðum á þessum tíma en þremur mánuðum síðar, þegar ég fer aftur í blóð­prufu, þá trúa læknarnir ekki eigin augum. Þá er blóð­sykurinn kominn langt niður og innan eðli­legra marka.“

Sneiðir hjá kol­vetnum

Ketómatar­æðið hefur notið vaxandi vin­sælda á undan­förnum árum en í grófum dráttum felur það í sér að sneiða hjá nær öllum kol­vetnum í matar­æðinu. Með tímanum fer líkaminn að nota fitu sem orku­gjafa í stað kol­vetna. Fyrir marga er um mikla breytingu að ræða enda svo gott sem úti­lokar matar­æðið ýmsar tegundir mat­væla, til dæmis brauð, sykur, sæl­gæti, snakk, kökur, kex, pasta og flesta á­vexti. Við­miðið er að að­eins tvö til fimm prósent af næringar­efnunum komi úr kol­vetnum en allt að 80 prósent úr fitu sem þýðir að fólki er frjálst að borða til dæmis rjóma og smjör í ríkum mæli en einnig kjöt og fisk.

Myndin til vinstri var tekin fyrir um það bil tveimur árum en myndin til hægri var tekin í vikunni. Friðrik er sæll og glaður með breytinguna og má líka vera það.
Myndir/Úr einkasafni

Lamba­kjöt, smjör og rjómi

Frið­rik segir að hann hafi tekið þessu mjög al­var­lega til að byrja með og verið mjög harður. „Svo fór ég að læra inn á þetta og gat farið að leyfa mér að­eins meira en ég gerði,“ segir hann og bætir við að hann leyfi sér stundum að borða súkku­laði sem inni­heldur sætu­efnið stevia.

„Í gær keypti ég mér svo hnetur með apríkósum og rúsínum. Það eru mín sætindi,“ segir Frið­rik sem segir aðal­málið vera að passa magnið. „Maður þarf bara að gæta þess að fara ekki yfir þetta 30-40 grömm af kol­vetnum á dag. En þetta kemst allt í vana með tímanum. Ég borða mikið lamba­kjöt, smjör og rjóma. Ég nota smjör mjög mikið og svo er ég dug­legur að taka víta­mín og lýsi. Fjöl­víta­mín og B-víta­mín, Omega 3 og svona. Ég tek þetta á hverjum degi.“

Ekki fengið höfuð­verk í tvö ár

Frið­rik fer ekki í graf­götur með það að ó­trú­legar breytingar hafa orðið á lífi hans eftir að hann byrjaði á ketó. Áður var hann mikið í kol­vetna­ríkri fæðu, sykri, unnum kjöt­vörum og alls­konar ó­hollustu. Hann átti það til að vakna á nóttunni og fá sér að borða en það er nú liðin tíð.

„Núna sef ég vel, blóð­þrýstingurinn er kominn niður og hálfu ári eftir að ég greindist með sykur­sýki minnkaði læknirinn við mig sykur­sýkis­lyfin. Ég þarf ekki einu sinni að mæla mig lengur. Ég hef ekki fengið haus­verk í tvö ár. Ekki einu sinni. Ég var með mjög slæmt ó­næmis­kerfi og glímdi til dæmis við astma. Ég hef átt astma­lyf upp í skáp í meira en ár og ég hef ekkert þurft að nota þau. Þetta er alveg ó­trú­legt. Mér líður bara miklu, miklu, miklu betur.“

„Ég hef átt astma­lyf upp í skáp í meira en ár og ég hef ekkert þurft að nota þau.“

Frið­rik segir að um sé að ræða líf­stíls­breytingu, í orðins fyllstu merkingu, og hann muni fylgja ketómatar­æðinu svo lengi sem hann lifir. „Já, al­gjör­lega. Þetta kemst upp í vana. Þetta var grát­lega erfitt fyrst, þegar maður áttaði sig á því hverju maður var að fara á mis við. Þetta var því­líkt erfitt en líka mikill lær­dómur. Það hafa alveg komið ein­staka dagar þar sem ég hef leyft mér að inn­byrða hátt í hundrað grömm af kol­vetnum á dag – mjög ein­staka sinnum – en ef maður passar þetta heilt yfir þá gerist þetta. Þetta gerist hægt en þetta gerist. Ef ég borða mikið einn daginn þá tek ég góðar föstur inn á milli og læt líða smá tíma þar til ég borða,“ segir Frið­rik og bætir við hann sé alls enginn öfgasinni þegar kemur að ketó. „Ég fasta ekki reglu­lega og fylgi ekki 17-7 til dæmis eins og margir.“

Getur ekki beðið eftir að komast í ræktina

Að­spurður um frekari mark­mið segir Frið­rik að hann ætli sér að halda á­fram á sömu braut. Hann getur ekki beðið eftir að komast aftur í ræktina en viður­kennir að hann sé dá­lítið smeykur við CO­VID-19. „Þetta virðist samt allt vera að þokast í rétta átt en ég get ekki beðið eftir að fá bólu­efni.“

Frið­rik sagði sögu sína fyrst í Face­book-hópnum Keto Iceland og er ó­hætt að segja að færslan hafi fengið mikil við­brögð. Hamingju­óskum rigndi yfir Frið­rik og hátt á annað þúsund manns settu „læk“ við færsluna hans. „Ég bjóst ekki við svona rosa­legum við­brögðum. Ég hef aldrei vitað annað eins,“ segir Frið­rik að lokum.