Borat Subsequent Moviefilm

Leikstjórn: Jason Woliner

Aðalhlutverk: Sacha Baron Cohen og Maria Bakalova

***

Fyrir fjórtán árum sprengdi hamhleypan Sacha Baron Cohen allt sem heitir poppkúltúr með stjörnublaðamanninum Borat Sagdiyev. Áhorfendur engdust um af hlátri og drápust næstum úr aulahrolli þegar kasakski fréttasnápurinn gerði sig og viðmælendur sína að algjörum fíflum og heimurinn þurfti að umbera ferlegar eftirhermur af eftirminnilegustu frösum Borat: „Very nice!“ og „Va va ví va!“.

Undirstaða myndarinnar byggði aftur á að viðmælendur vissu ekki að verið væri að gabba þá. Eftir velgengni Borats á heimsvísu virtist því ómögulegt að framhaldsmynd um fréttamanninn myndi nokkurn tímann líta dagsins ljós. Sögusagnir fóru þó af stað þegar Baron Cohen hafði sést í fjölda dulargerva víðs vegar um Bandaríkin, en það var ekki fyrr en fyrir mánuði að Amazon tilkynnti myndina formlega til sögunnar. Hvernig í ósköpunum gat þetta gengið?

Myndin hefst á því að rekja afdrif Borats í kjölfar fyrri myndarinnar. Landar hans voru ekki par sáttir við þá mynd sem þar var máluð upp af Kasakstan og fyrir vikið hefur Borat þurft að sæta fangelsisvist, þrælavinnu og niðurlægingu á almannafæri. Hann fær þó tækifæri á að fá uppreist æru þegar ráðamenn landsins senda hann í sérstaka sendiför til Bandaríkjanna. Borat á að færa Michael Pence varaforseta bráðgáfaða apann Johnny að gjöf í þeirri von að styrkja samband landanna tveggja og efla ímynd Kasakstans á ný. Allar áætlanir fara þó fljótlega í vaskinn og Borat tekur þá upp á að bjóða Pence dóttur sína Tutar sem kvonfang í staðinn.

Formúlan hefur lítið breyst á milli mynda og er í grunninn sú sama. Borat keyrir um Bandaríkin og tekur kostuleg viðtöl við alls konar fólk. Inni á milli eru svo leiknar senur sem tengja söguna saman. Til að komast hjá því að fólk beri kennsl á sig bregður Borat sér í dulargervi sem alls konar Bandaríkjamenn og er útkoman oft ansi hlægileg.

Helsta breytingin er þó aðkoma leikkonunnar Mariu Bakalova sem fer með hlutverk Tutar. Í fyrstu spretta upp einhverjar vangaveltur um að ný persóna kunni að draga sviðsljósið frá Borat. Áhyggjurnar eru þó fljótar að hverfa enda stendur Bakalova sig frábærlega og persóna Tutar spilar fullkomlega í takt við Borat.

Þótt atburðarásin sé á margan hátt keimlík fyrri myndinni er ádeilan í þetta skipti fókuseraðri. Viðmælendur í fyrri myndinni voru þverskurður af Bandaríkjamönnum og viðmælendur Borats komu úr ólíkum áttum. Í þetta skiptið virðist nánast öllu púðrinu beint að hægrinu og öfgahægrinu, og þótt þar sé af nægri vitleysu að taka verður afraksturinn talsvert einsleitari og ólíklegt er að grínið muni eldast jafn vel.

Þrátt fyrir einhverja bresti er afraksturinn þó sprenghlægilegur og óvenju hjartnæmur. Upp úr standa samtal Borats við eftirlifendur helfararinnar í bænahúsi og rosalegt lokaatriði með viðkomu stjórnmálamannsins Rudys Giuliani. Borat Subsequent Moviefilm er kannski eilítið bitlausari en forveri hennar en samt ansi beitt.

Niðurstaða: Sprenghlægileg en ögn bitlausari eftirbátur forverans.