Klúrt tíst Þórdísar Gísladóttur rithöfundar rataði á skjá landsmanna í beinni útsendingu í kvöld. Útvarpsstjóri segir heppilegra ef töf hefði verið á beinu útsendingunni til að hægt hefði verið að koma í veg fyrir það.
Í spjallþætti Gísla Marteins Baldurssonar Vikunni hefur skapast hefð fyrir því að birta nokkur velvalin tíst áhorfenda neðst á skjánum á meðan á þættinum stendur. Tíst Þórdísar var eitt þeirra sem valið var í þætti kvöldsins.

„Þórólfur hefur gefið grænt ljós á faðmlög en hvenær má fólk byrja að ríða eins og rófulausir hundar“ skrifaði Þórdís á Twitter og merkti þáttinn við tístið.
Nokkur umræða hefur skapast síðustu daga um beinar útsendingar RÚV og hvort ekki væri eðlilegra að hafa þær allar örlítið eftir á til að hægt sé að klippa á útsendingar ef eitthvað kemur upp á, sem ekki á heima á skjáum landsmanna.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sló á létta strengi eftir að tíst Þórdísar birtist á skjánum í kvöld. „Nú hefði verið gott að vera með 30 sek. töf á útsendingunni,“ skrifaði hann við tíst hennar.
Nú hefði verið gott að vera með 30 sek. töf á útsendingunni #vikan
— Stefán Eiríksson (@StefanEiriks) February 26, 2021