Orðið „útsýnisíbúð“ öðlast nýja merkingu þegar þakíbúðin á fimmtándu hæð að Rjúpnasölum 14 í Kópavogi er skoðuð. Þar má finna einstakt útsýni yfir höfuðborgarsvæðið, gólfhita og yfirbyggðan pott.
Um er að ræða 221 m² íbúð þar sem er að finna tvö baðherbergi og að sjálfsögðu er hjónasvíta til staðar með fataherbergi. Panorama svalir fylgja íbúðinni en þær eru 208,6 m² að stærð og gefa stórfenglegt útsýni til austurs, suðurs og vesturs.
Þá vekur það sérstaka athygli að svalirnar eru upphitaðar að meirihluta og þar má finna heitan pott með yfirbyggðri kúlu úr plexigleri. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasala má opna kúluna með því að renna framhlið til hliðar, en þá opnast 2/3 plexiglersins, og njóta sólarinnar á blíðviðrisdögum.
Gengið er út á svalirnar frá eldhúsinu, sem er flísalagt með fallegum innréttingum úr kirsuberjavið. „Útsýnið er eins og af svölum himnaríkis,“ segir Reynir Ásgeirsson, eigandi íbúðarinnar í samtali við Fréttablaðið.

















