Gils Þorri er menntaður matreiðslumaður og útskrifaðist með sveinspróf frá Gallery Restaurant á Hótel Holti árið 2014 og Aníta Rut er viðskiptafræðingur. Þau eru einstaklega samheldin og láta drauma sína rætast með framkvæmdagleðinni og ástinni.

„Við höfum verið saman í ellefu ár og búum í húsi sem við keyptum okkur á Hellissandi og eigum von á okkar fyrsta barni. Við erum mjög spennt að takast á við það nýja hlutverk,“ segir Aníta Rut og nefnir að þau sjái fyrir sér að þau verði með væntanlegan fjölskyldumeðlim á staðnum næsta sumar.

Staðurinn er hlýr og fallegur og í einstakri náttúruperlu.

Útsýnið heillaði okkur mest

Tilurðin bak Viðvík ber keim af ástarsögu og hvernig hjartað leitar oftar en ekki til heimahaganna. „Hugmyndin kom fyrst upp árið 2016 þegar Gils var fluttur heim á Hellissand til að fara á sjóinn með pabba sínum. Það hafði alltaf blundað í honum að opna veitingastað á heimaslóðum eftir að hann útskrifaðist og mamma hans ýtti vel á eftir okkur að flytja alveg vestur og byrja með okkar eigin rekstur. Það var þá sem leitin að húsnæði hófst fyrir veitingastaðinn. Viðvík varð fyrir valinu, sem var gamall sveitabær í upprunalegu ástandi, en staðsettur á Hellissandi og þaðan kemur nafnið, við ákváðum að halda í nafnið á gamla bænum. Staðsetning hússins er það sem heillaði okkur hvað mest þar sem útsýnið er alveg einstakt yfir Breiðafjörðinn og upp á Snæfellsjökul. Framkvæmdir hófust í byrjun árs 2017 og tókum við húsið algjörlega í gegn. Viðvík Restaurant var opnað 22. júlí árið 2017 og höfum við verið með opið á sumrin síðan þá.“

Sushi er vinsæll réttur á Viðvík og margir koma aftur og aftur til að fá sér slíkan rétt.

Mjög gefandi að vera í veitingarekstri út á landi

Gils sér auðvitað um matreiðsluna og matseðlagerð, á meðan Aníta sér um að bera matinn á borð til fólks og veita sem bestu þjónustu til viðskiptavina. „Við sjáum svo saman um allt annað sem tengist veitingastaðnum. Við höfum lært ótrúlega mikið á því að vinna og sjá um fyrirtækið okkar saman.“

Þegar þau er spurð út í hvernig sé að vera með veitingarekstur úti á landi, á stað eins og Hellissandi, stendur ekki á svörunum.

„Það er mjög gefandi að vera í veitingarekstri þó að það sé einnig ótrúlega erfitt og mikil vinna sem liggur á bak við reksturinn. Við höfum verið 100% sjálf á staðnum frá því við opnuðum Viðvík og fer öll okkar orka yfir sumarið í að vinna og sjá um fyrirtækið. Heimafólkið er búið að taka mjög vel á móti okkur alveg frá því við opnuðum og eru margir þeirra að heimsækja okkur mjög reglulega yfir sumartímann. Fyrstu sumrin einkenndust mikið meira af erlendum ferðamönnum en þeim íslensku, en það breyttist heldur betur síðasta sumar þegar Covid-19 gerði vart við sig og Íslendingar fóru að ferðast enn meira innanlands en áður. Það er virkilega gaman að geta komið fólki á óvart með gæðamat og góðri þjónustu í litlu bæjarfélagi eins og Snæfellsbæ.

Sushi-ið hefur slegið í gegn

Þegar kemur að því að setja saman matseðilinn er metnaðurinn í fyrirrúmi og sérstaða staðarins er skýr. „Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á gæði hráefna og framsetningu. Matseðillinn okkar er lítill og hnitmiðaður en nostrað er við hvern og einn einasta rétt. Matseðlinum breytum við á hverju sumri til að hafa fjölbreytileika. Nýjast á matseðlinum hjá okkur er sushi og hefur það slegið rækilega í gegn, við byrjuðum fyrst með sushi sumarið 2020 og má eiginlega segja að við fáum ekki að taka það af matseðlinum héðan í frá, það er svo vinsælt. Sushi er því orðið sérstaða okkar á Viðvík, en við höfum alltaf lagt mikið upp úr fiskmeti, þar sem mikið er af því í nærumhverfinu. Frá því við opnuðum Viðvík hefur humarsúpan okkar og þorskhnakki verið mjög vinsælt á matseðlinum, en við setjum þorskinn í nýjan búning á hverju sumri.

Créme Brulee með lakkrísbragði.

Créme Brulee með lakkrísbragði

Við fengum Anítu og Gils til að svipta hulunni af vinsælasta eftirréttinum á matseðlinum og leyfa lesendum að njóta. „Vinsælasti eftirrétturinn á matseðlinum, þá sérstaklega hjá Íslendingum, er Créme Brulee með lakkrísbragði, sem Gils gerir.“

Créme Brulee með lakkrísbragði

Fyrir 6-8 lítil Créme Brulee form

140 g eggjarauður

70 g sykur

600 ml rjómi

2-3 msk. af lakkrís-paste eða eftir smekk (við notum lakkrís paste frá merki sem heitir Sosa).

Byrjið á því að hita ofninn í 120°C (blástur). Blandið saman rjóma og lakkrís-paste í pott og hitið upp að suðu. Vigtið eggjarauður og sykur í skál og hrærið saman. Hellið heitri rjómablöndunni saman við eggjablönduna og hrærið stöðugt á meðan. Skiptið blöndunni niður í lítil Créme Brulee form og setjið í eldfast mót með heitu vatni í botninn sem nær upp að miðju formi og álpappír yfir. Bakið þau á 120°C í 29 mínútur og kælið svo vel á eftir. Þegar Créme Brulee er borið fram, stráið þá hrásykri yfir og brennið sykurinn með gasbrennara.