„Mér brá bara, ó­neitan­lega, og hafði ein­hvern veginn ekki búist við því að þetta kæmi. Þetta var á­kvörðun lista­mannanna, al­gjör­lega,“ segir Felix Bergs­son, farar­stjóri ís­lenska hópsins í Euro­vision í Tel Aviv, um út­spil Hatara í gær­kvöldi að halda uppi palestínskum fánum.

Í sam­tali við RÚV segir Felix ein­hverjir eftir­málar verði vegna málsins. Hverjir þeir verði sé enn ó­ljóst. „Ég hrein­lega veit það ekki á þessum tíma­punkti. EBU er búið að til­kynna mér að það verði ein­hver við­brögð. Við sjáum bara til hver þau verða,“ segir hann.

Hann kveðst vona að málið sé bara „stormur í vatns­glasi“. Á­kvörðun lista­mannanna hafi í sjálfu sér ekki komið á ó­vart, þrátt fyrir að starfs­fólki RÚV hafi ekki verið kunnugt um hana, en þarna væri komið fólk með miklar skoðanir á málum sem þessum.

Í kjöl­farið af á­kvörðun Hatara um að veifa palestínsku fánunum hafi hópurinn hrein­lega hætt að fylgjast með at­kvæða­greiðslunni sem þá stóð enn yfir.

„Það kom öryggis­vörður og tók fánana, krafði þau um fánana og tók þá. Ég bað þau um að skila öryggis­verðinum fánunum, ein­fald­lega af öryggis­á­stæðum. Svo fór ég í bara að huga að því að koma þeim inn í búnings­klefa strax og þetta yrði búið, svo að þau yrðu ekki mikið innan um á­horf­endur þegar þetta væri búið.“

Hann segist hins vegar stoltur af hópnum, fram­lagi Ís­lands í ár og öllum þeim staðið hafa að verk­efninu. Þau geti borið höfuðið hátt.

Að­spurður hvort hann sé ó­á­nægður með út­spilið segist hann ekki ætla að tjá sig um það. „Euro­vision er ó­pólitísk keppni og á að vera það. Það er svona hin stóra lína í þessu og sú lína sem ég hef reynt að halda. Og svo verða lista­mennirnir að taka sínar á­kvarðanir,“ segir Felix.

Wiwibloggs greinir frá yfirlýsingu EBU þar sem segir að uppátækið hafi verið gegn reglum keppninnar. Framkvæmdastjórn sambandsins muni koma til með að taka málið fyrir á komandi dögum.