Fimm ára dóttir bandarísku leikkonunnar Kristen Bell notar enn bleyju. Bell segir það vera vegna þess að börn séu mismunandi, með mismunandi væntingar og þrár. Þetta kemur fram í sérstöku mömmubloggi Bell þar sem hún ræðir áskoranir í móðurhlutverkinu.
„Þegar elsta dóttir mín var 21 mánaða gömul, þurftum við bara að leggja til að hún myndi nota klósettið í öðru herbergi og hún gekk aldrei með bleyju eftir það,“ segir leikkonan.
„Við lágum upp í rúmi og hlóum út af þessu, eiginmaðurinn og ég vorum bara: „Af hverju gera allir svona mikið mál úr þessu? Þetta var svo einfalt, segðu bara krakkanum að fara á klósettið.“
Hún segir að þeim hafi hefnst fyrir þennnan þankagang. „Núna er mín yngsta fimm ára og enn í bleyju,“ segir Bell. Vinkona hennar, Maya Rudolph og Casey Wilson bentu á að þetta væri allt saman ólíkt milli barna.
„Þetta er mjög afstætt, er það ekki?“ svarar Maya henni. „Jú, því öll börn eru svo ólík,“ segir Kristen.