„Ég syndi og mæti mönnum og það eru köll og svo nær maður bátnum sem betur fer fyrir rest,“ segir Halldór Gunnarsson vélstjóri í þættinum Útkall á Hringbraut í kvöld, um þegar hann syndir um hávetur í niðamyrkri og ískulda að björgunarbát sem var þó hálf botnlaus, óvitandi um hvaða skipverjar og félagar myndu halda lífi.

Halldór Gunnarsson vélstjóri

Halldór var einn þeirra sem bjargaðist þegar Ms.Suðurland sökk á jólanótt 1986 norðan við heimskautsbaug. Fyrri þátturinn um þennan hrikalega atburð og miklu björgun er á dagskrá í kvöld og þar birt myndefni tengt atburðinum.

Ellefu voru um borð og sex fórust. Hinir fimm sem lifðu stóðu í sparifötunum einum upp í hné í 13 klukkustundir.

Halldór lýsir því m.a. hvernig hann kastast af skipinu í gríðarlegum öldum, í jólafötunum og björgunarvesti - ekki var til að dreifa flotgöllum – og með krafti sem hann vissi ekki að hann byggi yfir synti hann að björgunarbátnum.

Útkall í Atlantshafi á jólanótt kom út árið 1999 og þar kemur m.a. fram að einn skipverjanna sem lifðu af hefur haldið því fram að skipið hafi verið tekið niður af sovéskum risakjarnorkukafbáti.

Í þáttunum um skipbrot Suðurlandsins er einnig sagt frá dönskum bjargvættum mannanna.

Þættirnir Útkall eru í umsjón Óttars sveinssonar á Hringbraut og frumsýndir vikulega Kl.19.30 á þriðjudögum.

Óttar ræðir þar við einstaklinga sem komið hafa við sögu í bókum hans um stórslys og björgun á og við Ísland.