Þótt Helga Magnúsdóttir eigi margar minningar úr æsku sinni tengdar gönguferðum með foreldrum sínum er stutt síðan útivistin varð hluti af lífsstíl hennar. Stóra markmið hennar næsta sumar er að ganga Laugaveginn á fimm dögum og ætlar hún sér að nýta veturinn vel til að komast í gott gönguform. „Ég skráði mig í gönguklúbb hjá Ferðafélagi Íslands sem heitir FÍ Vaxandi en hann verður starfræktur í allan vetur og er helsta markmið hans að byggja upp gönguþol og styrk hjá þátttakendum fyrir næsta sumar. Hópurinn fer rólega af stað en smátt og smátt verða göngurnar aðeins meira krefjandi. Ég hlakka til að ganga reglulega, vera undirbúin fyrir göngur, finna innra með mér að getan sé til staðar og geta því notið þess að ganga næsta sumar.“

Draumur hennar er að geta dottið inn í nánast hvaða göngu sem er, vitandi að hún hafi getuna til þess. „Fyrir mig skiptir félagsskapurinn líka miklu máli og það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki og upplifa sigra með öðrum.“

Helgu finnst gaman kynnast landinu í návígi enda ekki hægt að skoða margar náttúruperlur nema fótgangandi.

Útivist er mikill gleðigjafi

Helga segir útivistina efla sjálfstraustið og vera hennar andlega vítamín. „Mér finnst gaman kynnast landinu í návígi enda ekki hægt að skoða margar náttúruperlur nema að fara gangandi. Það er mjög gefandi að kynnast því stóra og smáa í umhverfi okkar og sjá hvernig landið breytir um svip eftir árstíðum og veðri. Vindur, rigning og kuldi skipta engu máli ef maður er bara rétt klæddur. Það gefur svo mikinn frið í sálina að ganga í náttúrunni og því er útivist mikill gleðigjafi í mínum huga.“

Vetrargöngur ekki síðri

Foreldrar Helgu eru mikið útivistarfólk og voru virk í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs þegar hún var stelpa. „Ég þvældist því mikið með þeim þegar ég var yngri. Útivistin hefur því alltaf fylgt mér en ég hef ekki sinnt henni jafn vel undanfarin ár og ég hefði viljað. Síðustu sumur hef ég stundað stopular göngur og farið á skíði á veturna.“

Með aldrinum segist hún þó hafa fundið meiri þörf fyrir að vera úti og hreyfa sig en Helga er 54 ára gömul. „Vetrargöngur voru lengi vel út úr myndinni þar sem ég taldi þær ekki fyrir hvern sem er. En eftir að ég tók þátt í verkefni hjá Ferðafélagi Íslands fyrir nokkrum árum komst ég að því að göngur í náttúrunni að vetrarlagi eru alls ekki síðri en sumargöngur. Ég hef því daðrað við útivist lengi en aldrei gert hana að mínum lífsstíl eins og mig hefur alltaf langað til.“

Á toppi Snæfells sem er hæsta fjall landsins utan jökla.

Með roða í kinnum

Fyrsta gangan í gönguklúbbnum er um miðjan september og síðan tekur við spennandi dagskrá næstu tíu mánuðina að hennar sögn. „Við munum einnig fá fræðslu um ferðahegðun, öryggi og hvernig á að undirbúa sig rétt fyrir lengri gönguferðir sem gerir mig enn betur undirbúna fyrir stóru gönguna næsta sumar.

En þótt Laugavegurinn næsta sumar sé stóra markmiðið verður líka gaman að taka allar þessar styttri göngur í vetur og koma heim með roða í kinnum. Samhliða gönguklúbbnum vonast ég til þess að komast á gönguskíði og fara reglulega í sund auk þess að fara stuttar göngur í mínu nánasta umhverfi.“