The North Face er þekkt bandarískt útivistarmerki. Listrænn stjórnandi Gucci, Alessandro Michele, fer sannarlega ekki nýjar leiðir í hönnun sinni. Sjálfur er hann mikill útivistarmaður og elskar allt frá áttunda áratug síðustu aldar. Það urðu reyndar margir hissa þegar eigendur Gucci réðu hann í þetta starf árið 2015. Fyrirtækið var á mikilli niðurleið en Alessandro tókst að rífa reksturinn upp með hugmyndaauðgi og frumlegri hönnun.

Alessandro Michele hefur rifið upp viðskiptaveldi Gucci. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Í nýlegum þætti af 60 mínútum á CBS var viðtal við Alessandro Michele, sem þykir yndislega sérvitur. Hann er sagður hafa ýtt vörumerkinu inn á nýtt tímabil á ögurstundu fyrir fyrirtækið. Á þremur árum þrefaldaðist salan hjá Gucci sem þykir nú eitt heitasta tískumerkið á markaði.

Það var því nokkur eftirvænting þegar Gucci boðaði samstarf við The North Face í lok síðasta árs. Tvö andstæð vörumerki sameinuðust í takmörkuðu úrvali af útivistarfatnaði. Fatnaðurinn varð svo vinsæll að nú er að koma ný lína. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem frægt tískuhús tekur upp samstarf við sportvörufyrirtæki. Prada og Adidas hafa gert það sama og sömuleiðis Stüssy og Dior. Þessi nýja fatalína nefnist The North Face x Gucci og eru fötin kyrfilega merkt með því merki. Vörulínan var seld í Hong Kong, Sjanghæ, London, New York og Mílanó. Merkið kemur með nýjan andblæ inn í krefjandi Covid-heim, segja samstarfsaðilarnir.

Flott úlpa frá GUCCI X THE NORTH FACE.

Fatalínan er sögð hagnýt og kynhlutlaus. Yfirhafnir, skófatnaður, peysur og töskur, svo eitthvað sé nefnt. Allt unnið úr endurnýttum efnum sem áfram verður hægt að endurvinna. Fatnaðurinn á að endast, samkvæmt stefnu þessara tveggja risa. Boðuð eru tjöld, svefnpokar og bakpokar í þessari nýju línu, sem eru frábærar fréttir fyrir þá sem vilja fylgja tískunni í öllu sem þeir gera. Gönguskórnir þykja einstakir með Goodyear-sóla og reimum úr reipi.

Gönguskórnir hafa vakið mikla athygli.

Með þessu er Gucci að viðurkenna breytta hegðun með Covid. Fólk leitar út í náttúruna. Þegar línan var kynnt var hún mynduð í Ölpunum af ljósmyndaranum Daniel Shea. The North Face er orðið gamalgróið útivistarmerki. Var stofnað í San Francisco árið 1968 og hefur alla tíð verið brautryðjandi í vörunýjungum.

Fatnaðurinn er úr endurunnu efni sem hægt verður að endurvinna.