Hátíðin Úlfarsfell 1000 verður haldin í annað sinn næstkomandi fimmtudag 23. maí en Ferðafélag Íslands stendur fyrir viðburðinum. Góðir gestir munu leggja hátíðinni lið: Katrín Jakobsdóttir mun flytja ávarp, Jakob Frímann Magnússon flytur tónlist sína og Herra Hnetusmjör stígur einnig á svið. Aðgangur er ókeypis.

Reynir Traustason, fararstjóri hjá Ferðafélaginu og fyrrverandi ritstjóri DV, skipuleggur viðburðinn með Ferðafèlaginu en hann hélt hátíðina fyrst 2017 í tilefni þess að hann hafði gengið 1000 sinnum á Úlfarsfell. Hann ákvað að taka líf sitt í gegn árið 2010 og var Úlfarsfell mikilvægur þáttur í því átaki.

„Þetta heppnaðist svo vel, Stuðmenn og Bjartmar Gunnlaugs spiluðu meðal annars og það komu um 2000 manns og úr því varð að við héldum áfram. Við þurftum að fresta hátíðinni í fyrra því það var svo mikil rigning en þetta lítur betur út í ár,“ segir Reynir. Viðtökurnar á síðustu hátíð voru vonum framar og var sett Íslandsmet í fjölda fólks á toppi Úlfarsfells en Reynir hvetur fólk til að mæta á fimmtudaginn og bæta það met.

„Úlfarsfell er náttúrulega perla í miðri borg. Það er ekkert betra en að ganga á fjöll. Þegar maður er of þungur eða þungur í skapi þá er þetta allra meina bót.“

Landhelgisgæslan verður einnig á staðnum líkt og síðast en nú á nýju þyrlunni TF-EIR. „Síðast kom þyrlan með Ragga Bjarna og hann söng Vorkvöld í Reykjavík en nú ætla þeir að sýna okkur nýju þyrluna sína sem þeir þurfa að æfa sig að nota. Þeir nota æfingaflugið til að heilsa upp á mannfjöldann í leiðinni,“ segir Reynir kampakátur en hann starfar nú eingöngu sem leiðsögumaður.

„Þetta hefur haldið í mér lífinu og ég er með sprækasta móti. Ég var í mjög slæmu formi. Ég var 140 kíló, ég var reykingamaður og ég var í versta djobbi í heimi sem ritstjóri DV. Stressið var hluti af þessu líka og mér fannst líklegt að ég myndi drepast langt fyrir aldur fram ef ég gerði ekki eitthvað. Þannig að ég hætti að reykja ég létti mig og fór í þessar fjallgöngur af krafti. Nú er þetta aðalstarfið mitt að vinna við leiðsögn og að fara á fjöll,“ segir fyrrum ritstjórinn sem hefur nú gengið meðal annars á Mont Blanc og Hvannadalshnjúk og mun fara í sína tvöþúsundustu fjallgöngu á fimmtudaginn kemur.

Gangan hefst við rætur Úlfarsfells klukkan 18:00 og standa hátíðarhöldin til 21:00. Hægt verður að ganga upp beggja megin við fjallið, Reykjavíkur og Mosfellsbæjarmegin.

Samkvæmt Veðurstofu verður alskýjað, 11 stiga hiti og vestanátt, 3 metrar á sekúndu.