Þegar kemur að því að ræða stefnur og strauma í hönnun útieldhúsa er enginn betur til þess fallinn en Björn Jóhannsson, landslagsarkitekt hjá Urban Beat. Hann hefur verið að vinna við hönnun garða og palla í um það bil 30 ár og er ávallt með puttann á púlsinum.

„Ég virðist aldrei fá leiða á þessu. Á hverju ári koma inn nýjar hugmyndir til að vinna með og nýjar útfærslur sem gera garðinn að stað sem má nýta allan ársins hring. Fyrir nokkrum árum var það kampavínsveggurinn, í ár erum við mikið að vinna með kryddjurtabarinn og svo hafa útieldhúsin verið að sækja sterkt fram. Það má segja að það sé það heitasta í dag. Ekki má heldur gleyma gróðurhúsunum, sem nýtast bæði til ræktunar og sem kaffi- eða rauðvínsstofa.“

Það þarf oft ekki mikið pláss fyrir útieldhús en hér er það nálægt gróðurhúsinu og í seilingarfjarlægð við pottinn.

Aðspurður segist Björn finna vel fyrir vaxandi áhuga fólks á útieldhúsum og margir vilja líka bæta þeim við það sem fyrir er. „Á tímabilinu fyrir 2007 teiknaði ég nokkuð margar grillstöðvar með innbyggðum grillum en síðan hefur það smám saman þróast yfir í yfirbyggð útieldhús. Ég hef einnig rekið mig á það síðustu ár að fólk hefur minnkað við sig hvað varðar íbúðarrými en lagt þá meira í garðinn sem stað til að nota allt árið. Þar er útieldhúsið mikilvæg viðbót.“

Minni útieldhús uppáhalds

Þegar kemur að því að hanna útieldhús, hvað er það sem við þurfum að hafa í huga?

„Já, þú biður ekki um lítið,“ segir Björn kankvís. „Listinn er ansi langur. Fyrst er það skjólið því ef ekki er hægt að mynda skjól þá er ekki hægt að vera í garðinum. Svo finnst mér alltaf spennandi þegar ég næ kvöldsólinni inn undir þakið. Hér skiptir stærðin líka máli. Algengt er að fólk sé með gas-, kola- og pitsuofn og þá þarf að koma þessu haganlega fyrir. Eins er tenging við eldhúsið inni og dvalarsvæðin í garðinum líka mál sem þarf að skoða. Mín uppáhaldseldhús eru í minni kantinum með gasgrilli, plássi fyrir pitsuofn uppi á vinnuborði og pláss fyrir borð með fjórum stólum. Svo má alls ekki gleyma að hafa hitara, fallega lýsingu og nóg af rafmagnstenglum.“

Ef útieldhúsið er notað allan ársins hring, sem er algengt, þá spilar lýsingin lykilhlutverk.

Fagurfræðin og notagildið flæða ávallt saman í hönnun Björns og skipta sköpum að verki loknu. „Eldhúsið verður að líta út sem eðlilegur hluti garðsins. Ég er nánast alltaf að hanna útieldhús sem hluta af garði en ekki sér einingu. Nú er algengt að beðið sé um smáhýsi í garðinn, ýmist sem geymslu, sólskála eða gufubað, og þá getur verið upplagt að framlengja þakið til að mynda skjól fyrir útieldhús.“

Lítill ísskápur næsta skref

Björn er á því að útfærslur á útieldhúsum séu almennt nokkuð líkar. „Þetta er nú yfirleitt nokkuð keimlíkt. Pláss fyrir grill, gott vinnupláss og pláss fyrir borð og stóla. Svo fyrir þá sem vilja fara skrefinu lengra má setja lítinn ísskáp sem geymslu fyrir vín eða bjór. Svo væri auðvitað hrikalega gaman að vera með ræktun í litlum kryddjurtabar við hliðina á eldhúsinu þannig að það megi tína beint inn á grillið. Ætli næsta útieldhús verði ekki búið kryddjurtabar.“

Eitt sem Björn segir að vert sé að hafa í huga er að fara varlega með eld. „Ef mikið er unnið með kol þá myndi ég flísaleggja gólf og vinnufleti og jafnvel hlaða vinnuborðin.“

Stundum er nóg að hafa bara litla grillstöð með fráleggsborðum fyrir kokkinn. Fallegt og vel skipulagt.
Pergóla í framhaldi af útieldhúsi getur verið skemmtileg viðbót. Það er líka þægilegt að hafa þak yfir.
Það má ekki gleyma því hvað ómáluð steypa getur verið smart en hér tengir hún útieldhúsið við útlit hússins.
Borð og stólar fyrir utan þakið en um leið og byrjar að rigna er ekkert mál að draga húsgögnin í skjól.