Útgefandinn Pétur Már Ólafsson vatt sér í að þýða glæpasögu sér til skemmtunar. Kveikjan að bókinni er hin áhugaverðasta.

„Kveikjan að bókinni Nætursöngvaranum vakti forvitni mína þegar ég frétti fyrst af henni,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti. Hann þýddi sjálfur þessa sænsku glæpasögu eftir Jóhönnu Mo sem nú er komin út. „Ég las hana í snatri nokkrum mánuðum áður en hún kom út í Svíþjóð í júní 2020. Í kjölfarið ákváðum við að tryggja okkur réttinn á bókinni, þótt við vissum svo sem ekkert um það hvernig henni myndi vegna – nema hvað útgefendur um alla Evrópu og reyndar í Bandaríkjunum líka voru að stökkva á hana.“

Nætursöngvarinn segir frá lögreglukonunni Hönnu Duncker sem snýr aftur á æskuslóðirnar á eyjunni Öland – þar sem faðir hennar var dæmdur fyrir morð. Og það var nýr yfirmaður hennar í lögreglunni sem kom honum á bak við lás og slá sextán árum fyrr. Joel sem er 15 ára gamall finnst myrtur á víðavangi. Hanna rannsakar málið, enda þótt móðir fórnarlambsins hafi eitt sinn verið besta vinkona hennar. Vinkona sem Hanna yfirgaf fyrir mörgum árum. En það eru ekki allir ánægðir með að dóttir morðingjans Lars Dunckers sé snúin aftur og Hanna uppgötvar að það getur haft alvarlegar afleiðingar að grufla í fortíðinni.

Áhrif morða

Þegar höfundurinn Johanna Mo var sjálf fimmtán ára gömul gerðust atburðir sem hún hefur forðast að segja frá. Leigubílstjórinn Dusanka Petrén var myrt árið 1991 og voru þrír menn á þrítugsaldri handteknir fyrir aðild að því. Nánast allir í heimabæ hennar, Kalmar, töluðu um þetta af því að þessir ungu menn voru þaðan. Þeir höfðu verið fengnir til verksins af fyrrverandi eiginmanni leigubílstjórans. „En það sem ég man best er þögnin,“ segir Johanna Mo. „Í minni fjölskyldu gátum við ekki talað um þetta. Maðurinn sem var dæmdur fyrir aðild og sem fjölmiðlar kölluðu „heilann“ var kærasti systur minnar. Við umgengumst fjölskyldu hans. Einn þeirra sem voru dæmdir fyrir morðið vann á sama kaffihúsi og ég.“

Allar götur síðan hefur Johanna Mo velt því fyrir sér hvað fái manneskju til að fremja morð, hvaða áhrif morðið hefur á aðra, bæði í kringum fórnarlambið og þann seka. „Nú hef ég loksins þorað að nálgast það síðarnefnda með því að láta nýju lögguna mína, Hönnu Duncker, eiga föður sem dæmdur var fyrir morð. Og ég sný aftur þangað sem þetta byrjaði allt saman: til Kalmar og Ölands-eyju,“ segir hún.

Nætursöngvarinn kemur nú út víða um lönd og hefur hvarvetna verið vel tekið.

Dróst að skila

Forleggjarinn Pétur Már segist hafa komist á bragðið með þýðingar í Covid þegar lítið var við að vera. Þá þýddi hann Blindgöng eftir Tove Alsterdal sem kom út í fyrra en Alsterdal fékk einmitt Glerlykilinn – norrænu glæpasagnaverðlaunin árið 2021. Í kjölfarið hafi hann ákveðið að ráðast í að þýða Nætursöngvarann sér til skemmtunar en það hafi dregist heldur að skila verkinu og hafi útgáfunni því seinkað aðeins: „Líklega var útgefandinn ekki nógu harður við þýðandann. Það gerist ekki aftur.“