Snæbjörn Arngrímsson, stofnandi bókaútgáfunnar Bjarts og maðurinn sem færði Íslendingum Harry Potter, hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin í ár fyrir bókina Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins.

Snæbjörn er fyrrum stórútgefandi á Íslandi og óhætt að segja að hann sé glöggur á barnabækur en hann veðjaði á Harry Potter áður en J.K. Rowling sló í gegn með bókunum um galdradrenginn og tryggði sér útgáfuréttinn á Íslandi.

Snæbjörn kemur því nú úr heldur óvæntri átt þar sem hann situr hinu megin við borðið með „bráðskemmtilegri ungmennabók“, eins og verðlaunabókinni er lýst í tilkynningu frá Vöku-Helgafelli. Þá er Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins sögð vera grípandi saga „um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu, hugrökk og huglaus börn.“

Snæbirni voru flestir vegir færir eftir að Harry Potter byrjaði að malað litla bókaforlaginu Bjarti, sem í upphafi var gamall, sjúskaður sófi, svo mikið gull að útgáfan varð eins sú stærsta á Íslandi.

Snæbjörn veðjaði síðan aftur á réttan hest þegar hann stofnaði útgáfuna Hr. Ferdinand í Danmörku 2003 en fyrsti útgáfurétturinn sem forlagið tryggði sér var á Da Vinci lyklinum eftir Dan Brown sem seldist eins og heitar lummur út um allan heim.

Snæbjörn flutti til Danmerkur 2006 og seldi síðan Bjart á hárréttum tíma fyrir hrun 2008. Hann settist síðan að á Ítalíu þaðan sem hann kemur nú brakandi ferskur aftur inn á íslenskan bókamarkað með glæsibrag á óvæntum forsendum.