Hari segist alltaf grilla þegar hann geti verið í stuttbuxum. Þegar hann er spurður hvenær rétti tíminn sé til þess, svarar hann. „Það er alltaf hægt að vera í stullum.“ Ætli megi því ekki segja að það sé nær alltaf hægt að grilla svo framarlega sem staðið er í skjóli frá veðri og vindum. Hari kennir hér lesendum að grilla heilan kjúkling þar sem hryggjarsúlan er klippt frá og fuglinn síðan flattur út.

„Ég hef alltaf gaman af því að grilla. Þegar ég elda kjúkling á þennan hátt finnst mér best að setja hann í salt- og sykurlög í sólarhring áður. Fæstir nenna því og þess vegna sting ég upp á að salta hann vel klukkutíma fyrir eldun. Fyrst er þó hryggjarsúlan tekin. Þerra þarf vökvann sem saltið dregur úr kjötinu með eldhúspappír fyrir grillun. Aldrei skal skola kjúkling með vatni í eldhúsvaskinum því það eykur hættu á bakteríusmiti í eldhúsinu,“ útskýrir Hari.

Hann segist pensla kjúklinginn með olíu til að kryddið haldist vel á honum. „Ég nota blöndu af hvítlauksdufti, papriku og chili-pipar til að byrja með. Set þetta vel yfir kjúklinginn og bragðbæti síðan með salti og pipar. Ég hita síðan grillið vel og set gjarnan harðviðarkubb sem ég pakka inn í álpappír ofan í til að gefa reykbragð. Nauðsynlegt er að gera nokkur göt á álpappírinn svo reykurinn komist í gegn,“ segir hann.

„Þegar grillið er orðið vel heitt er kjúklingurinn lagður á með sárið fyrst niður. Síðan er honum snúið nokkrum sinnum á meðan hann er að fá lit og gætið að því að hann festist ekki við teinana. Þá er slökkt á miðbrennara og eldað áfram á óbeinum hita (Indirect). Eftir smástund kemur síðan töfrabragðið þegar kjúklingurinn er maltaður. Ég nota góðan vökva sem þarf að vera aðeins sætur, til dæmis malt, eplasafa eða engiferöl. Út í vökvann fer smávegis tómatsósa og þurrkaðar kryddjurtir, steinselja eða hvað annað sem hugurinn kýs. Kjúklingurinn er síðan penslaður með þessu af og til allan eldunartímann á skinnhliðinni en það þarf ekkert að snúa honum þegar hér er komið sögu. Þá myndast sæt karamelluhúð. Kjúklingurinn er um það bil að eldast í klukkustund með þessari aðferð en ég nota alltaf kjöthitamæli og er ánægður þegar hann er kominn í 75°C. Þá læt ég hann hvíla í smástund áður en hann er skorinn niður,“ segir Hari. „Með þessari aðferð verður kjúklingurinn einstaklega safaríkur og góður.“

Hari segir að hver og einn geti valið sér meðlæti. „Bakaðar kartöflur er fínt. Það þarf ekki sósu með þessum kjúklingi en allt í lagi að hafa kalda sósu fyrir þá sem vilja en aðallega þá á kartöflurnar,“

Hari sér venjulega um eldamennskuna á heimilinu enda finnst honum gaman að stússast þar. „Ætli ég sé ekki frekar einföld sál í matargerðinni. Mér finnst til dæmis gaman að baka pitsu eða jafnvel bara grilla hamborgara.“

Kjúklingurinn verður extra djúsí þegar hann er eldaður á þennan hátt.