Elis Veigar Ingibergsson varði tveimur vikum í að útbúa piparkökuhús eftir Hallgrímskirkju í Reykjavík sem hann sendi inn til þátttöku í piparkökuhúskeppni til styrktar barnaspítalans í British Columbia í Kanada.
Elis hefur verið búsettur í Kanada í rúm sex ár og tekur þátt í keppninni fyrir hönd vinnustaðar síns, Stong‘s matvöruverslun. Hann hefur undanfarin ár verið verðstjóri þar [e. pricing coordinator] en Stong‘s rekur tvær matvöruverslanir, aðra í Vancouver og hin í North-Vancouve
„Keppnin er í Grouse Mountain sem er skíðasvæði og fjall hér í North Vancouver. Keppnin er til stuðnings barnaspítalans á svæðinu,“ segir Elis Veigar í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að verslunarstjórinn hafi beðið hann að taka þátt fyrir þeirra hönd eftir að hann sá grasker sem Elis hafði skorið út fyrir hönd verslunarinnar í kringum Halloween.
„Ég ákvað að slá til því ég er alltaf til í nýjar áskoranir og ég elska að baka og vera skapandi,“ segir Elis.

Fyrsta piparkökuhúsið sem hann gerir
Eins og má sjá á myndum sem fylgja fréttinni var mikið lagt í kirkjuna. Elis segir að það hafi tekið hann um tvær vikur að búa húsið til.
„Ég fann uppskrift á netinu, teiknaði formið á kirkjunni eftir myndum og bjó svo til sykurgler. Þetta tók mig alls um tvær vikur. Þetta er fyrsta piparkökuhúsið sem ég bý til,“ segir Elis Veigar.
Spurður hvers vegna Hallgrímskirkja varð fyrir valinu segir Elis að þema keppninnar í ár sé „Around the World“ sem mætti þýða sem „Um allan heim“ og því hafi honum fundist hann verða að gera eitthvað íslenskt.
„Hallgrímskirkja kom fyrst upp í hugann þar sem hún er mögnuð bygging og ég tel að hún sé auðþekkjanleg fyrir hvern sem hefur heimsótt landið. Ég ákvað að undirstrika ísinn á Íslandi með því að gera stuðlabergi úr sykurgleri og gera kirkjuna að smá íshöll líka. Mig langaði ekki að gera bara eftir líkingu af kirkjunni,“ segir Elis Veigar, og bætir svo við:
„Ég held að með því að nálgast hönnunina á þennan hátt þá slái hún líka í gegn hjá börnum þar sem hún minnir á kastala beint út úr Frozen.“
Hægt að kjósa til 5. janúar
Sigurvegarar verða tilkynntir þann 10. janúar og er hægt að kjósa á netinu til 5. janúar. Sigurvegarar verða ákveðnir með tilliti til atkvæða almennings og dómnefndar.
Á heimasíðunni Gingerbread Village challenge má sjá að alls taka þrettán þátt og eru húsin flokkuð eftir því hvort að þátttakendur eru atvinnubakarar eða ekki. Þá er einnig flokkað eftir því hvort þátttakendur eru eldri eða yngri en 18 ára.
Hægt er að kynna sér málið betur hér og kjósa Elis í keppninni.