Um er að ræða eina af ástsælustu vegasögum okkar tíma. Þeim fáeinu hræðum sem hafa enn ekki kynnt sér þessa frábæru menningargersemi er bent á að hætta að lesa greinina undir eins, því hér á eftir munu fara ýmsar uppljóstranir sem ætlaðar eru aðdáendum Stellu en gætu skemmt fyrir fyrsta áhorfi ókunnugra.

Með aðalhlutverk í Stellu í orlofi fara þau Edda Björgvinsdóttir (Stella), Gestur Einar Jónasson (Georg), Þórhallur Sigurðsson (Salomon), Sólveig Arnarsdóttir (Eva), Unnur Berglind Guðmundsson (Silja), Gísli Rúnar Jónsson (Anton flugstjóri), Ása Hlín Svavarsdóttir (sænska gæran), Björgvin Franz Gíslason (sveitastrákur) og Hildur Guðmundsdóttir (sveitastelpa). Leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir og handritshöfundur er Guðný Halldórsdóttir.

Salomon þarf ekki sjúss, hann þarf bara lax.

Bláar sokkabuxur, lýsislykt, pappír og berjaljóð

Stella, ráðagóð og eiturhress húsmóðir í Reykjavík, tekur þá afdrifaríku ákvörðun að skella sér í veiðiferð eftir að Georg, maðurinn hennar handleggsbrotnar og þarf að hætta við téða veiðiferð, sem að sjálfsögðu er ekkert annað en framhjáhaldsferð í dulargervi með „gærunni“ sem nefnd er í upphafi pistils. Upphefst stórskemmtilegt ferðalag þar sem alkóhólistinn Salomon, sem sjálfur ætlar í SÁÁ-meðferð, er sóttur á flugvöllinn í misgripum fyrir „viðskiptafélaga Georgs“, sem að sjálfsögðu er engin önnur en framangreind gæra sem í kjölfarið sést reglulega skakklappast um vegakerfi landsins í leit að Georg á háum hælum og bláum sokkabuxum alla leið í veiðihúsið við Selá, þar sem megnið af kvikmyndinni á sér stað. Við sögu koma kátir meðlimir Lionsklúbbsins Kidda, ógleymanleg veiðiferð lituð dagdrykkju, fornmælt sveitasystkini, bændafólk sem selur engar landbúnaðarafurðir, horfin veska, laxahjarta sem angar af lýsi og fjölmörg önnur ógleymanleg atriði.

Ekki er mælt með að lesendur leiki þetta atriði eftir. Spritt getur verið afar eldfimt.

Egg eru uppspretta ógæfu

Egg, spæld eður ei, koma víða við sögu í kvikmyndinni, en atriðið þar sem Stella og Salomon vippa upp hurðinni að veiðihúsinu endar á því að egg brotnar á höfði Salomons og eftirfarandi setning hljómar: „Herregud, þetta er blóð“. Einnig muna margir eftir gömlu konunni í hjólastólnum sem lemur göngustaf sínum ítrekað í bæjardyrnar og æpir í sífellu: „egg!“. Persónur kvikmyndarinnar efast sífellt um gæfusemi og manngildi Georgs enda er hann sérlega aumkunarverð persóna. Ólán hans hefst á því þegar hann missir andlitið bókstaflega ofan í „gulu majónesuna“ í afmælisboði í upphafi kvikmyndarinnar, en glöggir lesendur vita að majónes er ekkert annað en egg og olía. Einnig má nefna sveitasystkinin sem hafna peningum Georgs og systirin hefur orð á því að hann virðist eigi gæfumaður vera. Á eftir koma þessi fleygu orð frá bróður hennar: „Vel var þetta mælt Sigríður mín og segir mér hugur um að þú hafir spælt mann þennan.“

Þessi stórskemmtilega ferðasaga er án efa ein tilvitnaðasta kvikmynd Íslandssögunnar og kveikir hjá flestum óslökkvandi ferðaþrá um íslenska vegi og náttúru.