Agnes Wild er leikkona og leikstjóri og leikstýrir nú verkinu Geim-mér-ei sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu þann 16. janúar. Stór hluti sýningarinnar er í svokölluðum Bunraku-stíl, sem er japanskur brúðulistarstíll.

„Bunraku er lítið þekktur leikhússtíll hér á landi og í raun sjaldgæf upplifun íslenskra leikhúsgesta. Í Bunraku er brúðum stjórnað af tveimur til þremur leikurum sem samhæfa hreyfingar sínar svo að brúðurnar allt að því lifna við á sviðinu, anda og hreyfa sig alveg eins og lifandi verur,“ segir Agnes, um sýninguna.

Barnaleikhús einstakt

„Til dæmis er Vala, aðal söguhetja Geim-mér-ei, túlkuð þannig að einn leikari stjórnar hausnum hennar og annarri hendi, annar leikari stjórnar hinni hendinni og mjöðmunum og sá þriðji stjórnar fótunum. Við sjáum brúðuleikarana allan tímann, en eftir augnablik gleymum við því að þau séu þarna og horfum bara á brúðuna sem er svo raunveruleg í hreyfingum að hún gæti verið lifandi.“

Agnes hefur gífurlegan áhuga á barnaleikhúsi. Hún tilheyrir Miðnætti, atvinnuleikhóp sem undanfarin ár hefur fest sig í sessi sem sviðslistahópur sem sérhæfir sig í vönduðu leikhúsi fyrir börn og ungmenni.

„Hópinn stofnuðu þrjár listakonur, ég, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir. Við höfum starfað með fjölda frábærra listamanna. Verkefni Miðnættis hafa einkennst af fallegri og vandaðri hönnun, en einnig hafa leiklist og tónlist haldist í hendur og gengt jafn mikilvægu hlutverki og verið í lifandi flutningi í öllum okkar verkum,“ segir Agnes.

Miðnætti hefur hlotið mikið lof fyrir verkefni sín og hlotið tilnefningar til Grímuverðlaunanna.

„Hópurinn hefur ferðast víða með leiksýningar sínar, meðal annars til Grænlands, Póllands, Eistlands og Portúgal. Hópurinn var valinn úr 1.400 umsóknum til að koma fram á heimsþingi Assitej, sem eru alþjóðleg samtök sviðslistafólks sem gerir leikhús fyrir börn og ungt fólk, í Japan 2020 og fara í kjölfarið í leikferðalag um Japan,“ segir Agnes.

Ímyndunaraflið meira vægi

Stofnun hópsins varð til í kringum áhuga þeirra þriggja á leikhúsi fyrir börn.

„Í barnaleikhúsi hefur ímyndunaraflið meira vægi og það eru fleiri möguleikar í sögugerð. En börn eru þó mjög harðir gagnrýnendur og láta sko vita ef þau eru ekki ánægð. Það er líka mjög gaman að búa til verk sem höfðar til breiðs hóps fólks, þó svo að börnin séu í aðalhlutverki þá njóta hin fullorðnu oft ekki síður, þau skilja söguna betur og dýpra. Það er líka rosalega gaman að geta búið til samverustund barna og foreldra, eða annarra aðstandenda, oft afa og ömmu! Búa til umræðuvettvang eftir sýningu og hvetja til skapandi leikstunda þegar heim er komið.“

Hvernig kemur nafnið til, Miðnætti?

„Það eru tvær ástæður, sú fyrri er að miðnætti er í mörgum sögum svolítill töfratími, þá falla álög úr gildi eða töfrar byrja að virka, það er líka tími þegar börn eiga að vera sofnuð og byrjuð að dreyma. Sú seinni er að við erum öll miklir nátthrafnar og í hugmyndavinnu fara oft hlutirnir að gerast seint á kvöldin, á miðnætti höfum við fengið frábærar hugmyndir sem hafa ratað í verkin okkar.“

Agnes er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og byrjaði að leikstýra hjá Leikfélagi Mosfellssveitar þegar hún var 17 ára gömul.

„Það er svo ótrúlega dýrmæt reynsla að fá tækifæri til þess að æfa sig og prófa þegar maður er svo ungur. Ég er menntuð leikkona en eftir að ég flutti heim frá Bretlandi 2014 fór ég að einbeita mér meira að leikstjórninni.“

Sýningin Geim-mér-ei fjallar um Völu sem er sex ára forvitin og uppátækjasöm stelpa með brennandi áhuga á himingeimnum.

„Geim-mér-ei er ný brúðusýning án orða um ferðalag út í geim, ævintýraþrá, áræðni og óvænta vináttu. Í sýningunni er notast við blandaða brúðutækni, meðal annars japanska brúðuleikhússtílinn Bunraku. Sýningin er flutt án orða og tónlistin er frumsamin.“

Hvernig er að leikstýra einhverju sem er nokkurn veginn án orða?

„Það er í rauninni ekkert mikið öðruvísi en að leikstýra sýningu með texta. En stærsti munurinn er að þegar við byrjum er ekkert handrit til, heldur bara söguþráðurinn. Ég þarf því í samvinnu við leikara, tónlistarhöfund, ljósahönnuð og sviðshönnuð að finna út úr því hvernig við getum verið skýr á sem einfaldastan hátt án þess að tala. Þá kemur tónlistin sterk inn og af því að hún er leikin lifandi á sviðinu þá verður hún að tungumáli sýningarinnar ásamt öllum hreyfingunum og látbragðinu. Þetta snýst allt um ferðalag hverrar persónu á sviðinu og er nánast eins og að æfa danssýningu.“