Hinn íslenski Þursaflokkur markaði djúp spor í íslenska tónlistarsögu á árunum 1978-1982. „Ég náttúrlega hef alltaf verið mikill aðdáandi Þursaflokksins og Spilverksins. Og Stuðmanna líka reyndar. Þetta er allt sama fólkið í rauninni,“ segir Þór Freysson um aðdraganda þess að hann ákvað árið 2000 að ráðast í gerð heimildarmyndar um Þursana.

„Þetta var þegar ég var að taka upp Reykjavik Music Festival fyrir Stöð 2. Þetta voru risastórir alþjóðlegir tónleikar. Þá komu Þursarnir saman og þessi hugmynd um að ég yrði að gera heimildarmynd um hljómsveitina.“

Risar vakna

Þór segist í framhaldinu hafa tekið upp einhverjar æfingar en síðan hafi í raun lítið gerst fyrr en 2008 þegar tækifæri gafst til þess að fylgjast með hljómsveitinni undirbúa stóra tónleika í Laugardalshöll með sinfóníusveitinni Caput.

„Við það tækifæri tókum við viðtöl við hljómsveitarmeðlimi sem og samferðamenn þeirra, auk þess sem við fylgdumst með æfingum, og öðrum tónleikum sem þeir héldu við þetta tækifæri,“ segir hann og bætir við að þessi tími hafi verið ótrúlega skemmtilegur.

„Það var ótrúlega gaman að vera í kringum þá þegar þeir komu saman á fyrstu æfinguna þar sem þetta risaband var að vakna í pínulitlum 15 fermetra bílskúr hjá Geira Óskars.

Heimildarmynd um Þursafolokkinn verður sýnd í ríkisútvarpinu um páskana.

Mómentið hvarf

„Þetta var mjög gaman og svo einhvern veginn hvarf mómentið,“ segir Þór sem einsetti sér þó að klára dæmið á fertugsafmæli Þursaflokksins 2018.

„Ég er eiginlega voða ánægður með að þetta skyldi taka svona langan tíma vegna þess að myndin hefði sennilega aldrei orðið það sem hún er ef ég hefði eitthvað farið að hraðvinna þetta á sínum tíma.

Myndin var í raun tilbúin í september á síðasta ári og ég forsýndi hana fyrir Þursana og boðsgesti. Það var alveg ótrúlegt og ég átti ekki von á þessum viðtökum. Þeir voru bara með tárin í augunum,“ segir hann.

Þór bætir við að þótt Þursunum hafi gefist tækifæri til þess að tárast yfir myndinni á breiðtjaldi hafi alltaf staðið til „að hún færi svo beint í sjónvarp“ þar sem RÚV mun sýna hana í tveimur hlutum á skírdag og föstudaginn langa.

„Ég er eiginlega voða ánægður með að þetta skyldi taka svona langan tíma."