Undanfarin ár hefur átak sem kallast þurr janúar (e. dry January) notið sífellt meiri vinsælda en það á rætur sínar að rekja til Bretlands. Því var hleypt af stokkunum þar í landi árið 2013 og um 4.300 manns ákváðu að taka þátt. Árið 2020 hafði þátttakendum fjölgað til muna og meira en 4 milljónir skráðu sig til leiks. Átakið snýst um að drekka ekkert áfengi í janúar en ýmislegt bendir til þess að það hafi góð áhrif á heilsuna. Á meðal þess sem áfengislaus janúar ætti að hafa í för með sér er betri svefn, minni kvíði, lægri blóðþrýstingur og fallegri húð, svo eitthvað sé nefnt.

Hver dagur telur

En getur einn mánuður virkilega haft einhver áhrif á heilsuna? Já, því hver vika telur þegar fólk vill breyta um lífsstíl. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við háskólann í Sussex kom í ljós að sjötíu prósent þeirra sem tóku þátt í þurrum janúar fyrsta árið breyttu áfengisneyslu sinni til betri vegar með því að drekka minna og sjaldnar yfir árið í heild. Þessar niðurstöður eru einkar ánægjulegar í ljósi þess að alkóhól er heilsuspillandi. Það hefur til dæmis slæm áhrif á lifrina, truflar svefn, getur leitt til hærri blóðþrýstings og aukið líkur á kvíða og þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt.

Ráð fyrir betri árangur

Ef þú vilt taka þátt í þurrum janúar er ýmislegt sem þú getur gert til að ná árangri. Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um að vera með og setja markmið. Gott er til dæmis að hlaða niður Try Dry appinu, sem er frítt, en það hjálpar þér að fylgjast með hvernig gengur. Í gegnum appið getur þú fengið hvetjandi pósta og tilkynningar sem halda þér við efnið. Í appinu eru margs konar upplýsingar um alkóhól og fjöldi góðra ráða, sem þú getur nýtt þér til að halda janúar þurrum, auk þess sem þú getur sett þér markmið fyrir allt árið.

Það er líka margt sem hver og einn getur gert upp á eigin spýtur. Sem dæmi er gott að taka einn dag í einu, eða viku fyrir viku, frekar en að hugsa of langt fram í tímann. Þannig verður átakið yfirstíganlegra, ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að sleppa áfenginu alveg.

Þú getur líka fengið vini þína með þér í átakið en það er alltaf gott að fá stuðning frá öðrum. Þið gætuð til dæmis stofnað hóp á samfélagsmiðlum til þess að heyra hvernig hinum gengur og deila eigin reynslu.

Prófaðu líka að brjóta upp rútínuna og gera eitthvað nýtt. Í staðinn fyrir að hella víni í glas eftir erfiðan vinnudag er hægt að fá sér óáfengan drykk í fallegu glasi. Það má bragðbæta vatn með sítrónu, límónu eða appelsínu og það er líka gott að setja gúrkusneiðar eða myntu út í vatn. Ef það er ekkert að gera fyrir þig er hægt að finna fjölmargar uppskriftir að óáfengum kokteilum á netinu.

Losaðu þig við allt áfengi á heimilinu til að falla ekki í freistni. Finndu þér nýtt áhugamál sem tengist ekki áfengisdrykkju. Það getur verið hreyfing af hvaða tagi sem er, bakstur, eldamennska eða tungumálanámskeið á netinu. Njóttu þess að vera laus við áfengi, þótt ekki sé nema í einn mánuð á nýja árinu.