Elísabet Brynjarsdóttir starfar sem hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir það gefandi og þroskandi upplifun og að hún hafa sannfærst um gagnsemi skaðaminnkunar í fyrirlestri frá Svölu Jóhannesdóttur. Hún telur það hafa verið mistök að fella frumvarpið um afglæpavæðingu neysluskammta og segir það bitna mest á viðkvæmasta hópi samfélagsins.

Elísabet stefndi alltaf á að verða læknir en þegar hún tók inntökuprófið og komst ekki inn ákvað hún að „prófa“ hjúkrunarfræði.

„Þá kemst ég að því að það er allt sem ég vildi læra. Þar er heildræn nálgun á einstaklinginn sem er verið að aðstoða og þar er lögð mikil áhersla á að taka tillit til margra ólíkra þátta heilsu. Ég fann mig í því,“ segir hún.

Hentar réttlætiskenndinni

Elísabet útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2017. „Það eru algjör forréttindi að vera hjúkrunarfræðingur. Á margan hátt sameinar starfið margt af því sem brennur á mér, eins og mannréttindi, tillit til félagslegrar stöðu einstaklinga og aðgengi fólks að þjónustu. Siðareglur hjúkrunarfræðinga koma mikið inn á þetta og við erum oft málsvarar skjólstæðinga okkar,“ segir hún. „Frá því ég var lítil hef ég alltaf verið með mjög sterka réttlætiskennd, sem kemur sér bæði vel og líka oft illa. Ég var til dæmis oft send til skólastjórans þegar ég var lítil fyrir að vera alltaf að rökræða við fullorðna. En þess vegna talar það mikið til mín sem einstaklings að fá að vinna sem hjúkrunarfræðingur.

Í gegnum starfið fyrir Frú Ragnheiði er ég að kynnast ótrúlega áhugaverðum og góðum skjólstæðingahóp og eins klisjukennt og það kann að hljóma þá eru þau nú ástæðan fyrir því að maður er að gera þetta allt saman,“ segir Elísabet.

Kviknaði á ljósaperu í miðjum fyrirlestri

Elísabet byrjaði sem sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði í upphafi ársins 2018. „Í náminu tók ég þátt í að stofna geðfræðslufélagið Hugrúnu og við fengum meðal annars fyrirlestur frá Svölu Jóhannesdóttur, verkefnastýru Frú Ragnheiðar, um skaðaminnkun,“ segir hún. „Þá kviknaði á ljósaperu og ég áttaði mig á því að auðvitað eigum við að nálgast hlutina út frá þessari hugmyndafræði. Það á að taka forræðishyggjuna úr myndinni, styrkja einstaklinginn og lágmarka skaðann í samráði við hann. Ég skráði mig því sem sjálfboðaliði og í lok 2018 bauðst mér starf sem hjúkrunarfræðingur hjá verkefninu, sem ég þáði.

Vinnan er þannig að maður þarf að vera sveigjanlegur og ég reyni að vera eins mikið til taks og ég get,“ segir Elísabet. „Í frítímanum reyni ég svo bara að næra sjálfa mig á þann hátt að ég geti verið til staðar þegar ég er í vinnunni. Ég þarf að vera á nógu góðum stað til að geta tekið sjálfa mig út úr myndinni.

Elísabet segir að það séu algjör forréttindi að fá að vera hjúkrunarfræðingur og að starfið sameini margt af því sem hún hefur ástríðu fyrir. Hún segist alla tíð hafa haft mjög sterka réttlætiskennd og að það henti mjög vel í þessu starfi.

Vinnan á hug minn og hjarta núna,“ segir hún. „Ég veit að það gengur kannski ekki upp til lengri tíma að haga lífinu þannig en það er svo einstakt tækifæri að fá að starfa svona náið með og fá traust frá skjólstæðingum að ég hef lagt áherslu á það. Þegar ég fer eitthvert með vinum mínum eða mæti í veislu er yfirleitt hægt að finna mig einhvers staðar úti í horni að ræða skaðaminnkun.“

Hafa byggt mikilvægt traust

„Hjá Frú Ragnheiði starfa um 100 sjálfboðaliðar sem gefa tímann sinn á hverjum degi. Mér finnst það ótrúlegt að þetta sé bara fjármagnað með styrkjum og að því skorti rekstraröryggi,“ segir Elísabet. „Á Íslandi eru einstaklingar sem eru jaðarsettir og Rauði krossinn vill koma til móts við þá. Frú Ragnheiður var stofnuð fyrir ellefu árum með þetta í huga, að það væru einstaklingar sem nota vímuefni í æð og eru oft heimilislausir sem þyrfti að koma til móts við til að lágmarka skaðann sem af þessu hlýst.

Því var farið að bjóða upp á hreinan búnað til að lágmarka sýkingar og smit milli einstaklinga. Síðan hefur þetta þróast og í dag hafa sjálfboðaliðar okkar byggt upp gífurlegt traust hjá hópi í samfélaginu sem á erfitt með að treysta kerfum og leitar sér seint þjónustu ef þau gera það yfir höfuð. Við erum orðin ótrúlega mikilvægur tengiliður við þennan hóp,“ segir Elísabet. „Við leggjum áherslu á samráð við notendur og að varpa ljósi á aðstæður þeirra og auka skilning á þeim. Við höfum mannúð að leiðarljósi og stöndum með skjólstæðingum okkar þegar á móti blæs.

Skjólstæðingarnir eru yndislegt fólk og það er gefandi og lærdómsríkt að kynnast þeim. En það tekur á sálina að samfélagið styðji ekki þennan hóp og að það ríki úrræðaleysi og mótlæti, bæði í samfélaginu og innan kerfisins,“ segir Elísabet.

Þurfum bara að hlusta

Elísabet segir að Svala Jóhannesdóttir, sem hefur verið verkefnastýra Frú Ragnheiðar í næstum sex ár, sé einstakur frumkvöðull. „Hún hefur rutt veginn fyrir því að margir séu móttækilegir fyrir skaðaminnkun og ég var ein af þeim,“ segir hún. „Mér finnst að fólki eigi að kynna sér og tileinka sér hugmyndafræði skaðaminnkunar. Það eru svo magnaðir hlutir sem áorkast við það að taka sig og sínar skoðanir út úr myndinni, sleppa forræðishyggjunni og hjálpa þeim sem þurfa hjálp, á þeirra forsendum.

Með því að hlusta í raun og veru á hvað þau segja og hvað þau þurfa og koma svo til móts við það, er hægt að ná miklum árangri við að minnka skaðann sem getur fylgt neyslunni. Þetta er í raun það einfalt,“ segir Elísabet. „Það skiptir máli að horfa raunsætt á aðstæður, vita hvað einstaklingnum sem á að hjálpa finnst raunsætt og hjálpa honum að komast þangað sem hann vill.

Það eru margir sem hafa björgunarheilkennið og vilja koma inn og bjarga heiminum og öllum en þá er maður fljótur að detta í forræðishyggjuna. Oft er það eina sem þarf bara að vera reiðubúinn til að aðstoða, hlusta og vera til staðar með einstaklingum í hans nærumhverfi,“ segir Elísabet.

Afglæpavæðing er mannúðleg

„Ég studdi frumvarpið um afglæpavæðingu neysluskammta og Rauði krossinn skilaði inn umsögn til stuðnings frumvarpinu sem var skrifuð af skaðaminnkunarsérfræðingum. Ég stend með öllu sem kom fram þar,“ segir Elísabet. „Þetta er mannúðlega nálgunin og snýst líka um að 40 ár af ákveðinni stefnu hafa ekki skilað árangri, heldur verða sífellt fleiri dauðsföll og við erum með eitt stærsta hlutfallið af ofskömmtunum á ólöglegum vímuefnum í Evrópu.

Afglæpavæðing er sjálfsagt skref í þessari baráttu og með því er verið að tryggja ákveðin mannréttindi og draga úr skaða. Ef einstaklingur sem er jaðarsettur og heimilislaus er handtekinn vegna einhvers þarf lögreglan lögum samkvæmt að taka af honum neysluskammta, sem skapar vantraust til lögreglunnar og veldur því að fólk þorir síður að kalla á hjálp þegar hana þarf,“ segir hún. „Ef einstaklingurinn er háður vímuefnum þarf hann þá að fjármagna nýjan skammt og gerir það því miður yfirleitt á ólöglegan hátt. Þannig að með því að gera neysluskammtinn upptækan er verið að valda bæði einstaklingum og samfélaginu skaða. Fangelsisdómar geta líka gert endurhæfingu erfiðari.

Mér finnst umræðan vera komin á þann stað að fólk vilji afglæpavæðingu, bæði á Alþingi og meðal almennings. Það er eitt skref af mörgum sem hægt er að taka til að rétta af stefnuna í þessum málaflokki og það er orðið tímabært,“ segir Elísabet.

„Afglæpavæðing myndi líka gera það auðveldara fyrir einstaklinga sem neyta ólöglegra vímuefna að leita sér aðstoðar og fá sömu þjónustu og aðrir, en það er óneitanlega hægt að finna fordóma gegn neytendum ólöglegra vímuefna innan heilbrigðisþjónustu, þó að langflestir heilbrigðisstarfsmenn veiti þeim auðvitað sömu þjónustu og öllum öðrum,“ segir Elísabet. „Það að styrkja þennan hóp og koma til móts við hann hefur jákvæðar afleiðingar fyrir samfélagið í heild og ýtir undir traust til kerfisins og samstöðu í samfélaginu. Ef við stöndum með öllum sem tilheyra samfélaginu okkar hefur það jákvæðar afleiðingar fyrir okkur öll.“


Frú Ragnheiðar-bíllinn er á ferðinni alla daga nema laugardaga frá kl. 18-21. Síminn er 7887 123. Hægt er að hafa samband símleiðis eða senda skilaboð á Facebook-síðu Frú Ragnheiðar. Bílinn getur hitt einstaklinga hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu og 100% trúnaði er lofað.