Föstudaginn 29. maí fór fram Útskriftarhátíð Myndlistaskólans í Reykjavík í hvassviðri og nokkurri rigningu á Klambratúni. Þá útskrifuðust átta nemendur af myndlistarbraut fyrir nemendur með þroskahömlun, sem áður hafa lokið starfsbraut framhaldsskólans, en það er fyrsti hópurinn sem lýkur þeirri braut. Sextán nemendur luku námi á listnámsbraut, tuttugu og fimm nemendur luku fornámi, átta luku keramikbraut, tíu listmálarabraut, þrettán teiknibraut og sex nemendur luku textílbraut.

Ísak Óli Sævarsson gerði fimm mynda seríu með akrýlmálningu.
Viktor Birgisson

Árleg vorsýning skólans var opnuð á vefsíðu skólans miðvikudaginn 3. júní. Á sýningunni má sjá lokaverkefni allra 86 útskriftarnemenda sem eiga það sameiginlegt að vera að mestu leyti unnin í fjarnámi, en einmitt þegar nemendur voru að hefja vinnu við sín lokaverkefni kom skipunin um að skella í lás í sóttvarnaskyni. Þegar upp er staðið var brotfall mjög lítið. Nemendur sýndu hvað í þeim bjó, en þrátt fyrir misjafnlega frumstæðar aðstæður er niðurstaðan glæsileg sýning, sem sjá má á vefsíðu skólans, mir.is.

„Nemendur skólans voru með eindæmum lausnamiðaðir í því að klára skólaverkefnin sín í þessu ástandi.

En eins og gefur að skilja þá er ákaflega erfitt að kenna fög á borð við leirkerarennslu og olíumálun í fjarnámi.

En þetta tókst frábærlega, eins og sjá má á sýningunni okkar á netinu," segir Ágústa Sveinsdóttir, markaðsstjóri skólans, í samtali við Fréttablaðið. Ágústa segir að ástandið hafi í raun leitt margt gott af sér og það hafi verið þeim gott að þurfa hugsa út fyrir kassann. „Við munum hér eftir alltaf sýna lokaverkefni nemenda á vef skólans samhliða vorsýningum. Það er frábært að geta skrásett það sem gerist í skólanum á þennan hátt," segir hún.

Auður Mist Halldórsdóttir, vann með frásagnir kvenna af kynferðislegu áreiti í lokaverki sínu.
Steinn Logi, tvítugur myndlistarnemi, gerði verkið Nú ferðalag.
Agnes Hlynsdóttir notaði spegla, pappa, glerkrukku, akrýl og notaða gítarstrengi í verk sitt.