Litríkt og súrealískt ferðalag með demöntum, grænu smjöri, kökum og tennisboltum. Tónlistarkonan Ásta veldur ekki vonbrigðum með frumlegri list sinni en hún gefur út nýtt tónlistarmyndband við lagið sitt Kaffi hjá Salóme ásamt tónlistarkonunni Salóme Katrínu. Myndbandið er leikstýrt af Sonju Ævarsdóttur.

Líkt og margir vita vann Ásta verðlaun í flokki þjóðlagatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra fyrir plötu sína Sykurbað. Hún hefur aldeilis ekki setið auðum höndum í faraldrinum og gefur út nýja tónlist sem hægt er að nálgast á Spotify.

Ásta er víóluleikari að mennt og áreiðanlegar heimildir herma að hún er bjartasta von Íslands á hljóðfærinu. Hún var á leið í meistaranám í Shanghai í víóluleik þegar hún áttaði sig á því að hana langaði ekki til þess, og flutti hún þess vegna til Flateyrar í lýðháskóla þar sem hún samdi sína fyrstu plötu, Sykurbað, sem vakti mikla athygli fyrir persónulegan texta.

„Einhvern veginn þá lýgur maður oft að sjálfum sér en það gengur aldrei upp til langs tíma. Það gleymist oft, það gleymist held ég mjög oft, að andlegt ofbeldi er líka ofbeldi. Maður á aldrei að leyfa fólki að koma fram við mann eins og skít. Það er bara þannig,“ sagði Ásta í ræðu sinni þegar hún tók við verðlaunum fyrir bestu plötu ársins í fyrra.

Lagið Kaffi hjá Salóme er fyrsta lagið sem hún gefur út síðan 2019