Þórunn María hefur á síðustu 20 árum komið að hönnun yfir 60 sviðsverka sem búninga- og/eða sviðsmyndahönnuður fyrir leikhús, óperur og kvikmyndir hér á Íslandi og erlendis. Upphaflega var þó ætlunin að vinna í tískugeiranum. „Ég lærði fatahönnun og sniðagerð í París seint á síðustu öld,“ segir Þórunn brosandi. „ Ég fékk vinnu hjá ungum hönnuðum í París eftir námið og kynntist tískuheiminum í gegnum það starf en upplifði hann yfirborðskenndan. Svo flutti ég til Belgíu; vann fyrst hjá Dries Van Noten, belgískum fatahönnuði, en fékk svo vinnu við búningadeild í Konunglegu flæmsku óperunni og það heillaði mig. Mér fannst og finnst leikhúsheimurinn skemmtilegur heimur. Í framhaldinu fór ég í leikhúshönnun í Konunglegu flæmsku listaakademíunni og fór svo að vinna fyrir leikhús í Belgíu.“

Form, litir, efni

Það er stundum sagt að fötin skapi manninn, en hvað segir búningur um persónuna? „Búningarnir, sviðsmyndin, lýsingin og tónlistin eru allt hluti af þeim heimi sem verið er að skapa á sviðinu. Það getur verið raunsæisheimur eða abstrakt heimur eða blanda af hvoru tveggja. Og það er auðvitað eins og með allt sem hefur form og liti að það er hægt að gefa því merkingu ef maður vill og gefa því sögn,“ segir Þórunn og bætir við að stundum sé búningurinn einvörðungu hugsaður til að undirstrika þá persónu sem leikarinn er að túlka eins og hún er í handritinu í þeim tíma og tíðaranda sem upp er gefinn í handriti. Hún segir leikstjóra og listræna aðstandendur yfirleitt koma sér saman um hvaða leið skuli farin í upphafi vinnunnar. „Á að vísa í tímabil í sögunni eða ekki? Hver er heimurinn sem verið er að skapa? Sem áhorfendur túlkum við liti, form og efni oft nánast óafvitandi. Alls kyns hlutir og atriði eru táknrænir og það hvort efnið er stíft, létt og leikandi eða gegnsætt, þetta hefur allt sitt að segja. Svo koma leikarar að sjálfsögðu með sínar hugmyndir og athugasemdir enda mjög mikilvægt að þeim líði vel í því sem þeir klæðast á sviðinu og að búningurinn styðji þeirra túlkun. Mínu starfi er yfirleitt lokið á frumsýningu en ég fylgist með búningunum ef sýningin gengur lengi, fer og athuga hvort allt sé eins og það á að vera. Oft er listi sem kemur frá klæðara eða sýningarstjóra eftir hverja sýningarhelgi í leikhúsunum með atriðum sem þarf að lagfæra enda álagið á fatnaðinn oft mjög mikið.“

Englabörn í uppáhaldi

Aðspurð hvaða verkefni sé henni minnisstæðast segist Þórunn verða að svara með klisju. „Það er eiginlega alltaf verkefnið sem maður er að vinna að þá stundina sem er mest spennandi og á hug manns allan“ segir hún en bætir við: „En svo langar mig kannski að nefna Englabörn eftir Hávar Sigurjónsson sem var sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu árið 2001. Við vorum að æfa þegar árásin var gerð á Tvíbura­turnana í New York og ég upplifði svo sterkt andrúmsloft akkúrat á meðan á þeirri vinnu stóð sem smitaðist inn í vinnuna. Englabörn var líka ótrúlega áhrifaríkt og fallegt verk sem og tónlistin sem Jóhann Jóhannsson heitinn samdi fyrir sýninguna. Þessi uppsetning lifir sterkt í minningunni. En svo hef ég verið svo heppin að fá að vinna að mörgum ólíkum verkefnum sem öll hafa eitthvað minnisstætt og áhugavert fram að færa.“

Dauðinn og gallsteinar

Einleikur Charlotte Böving, Ég dey, var frumsýndur í gær en þar á undan sá Þórunn um búninga í verkinu Samþykki sem var sýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Næsta verkefni er svo söngleikurinn Gallsteinar afa Gissa hjá Menningarfélagi Akureyrar í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Þetta eru mjög ólík verkefni en Þórunn fagnar fjölbreytileikanum. „Þetta eru líka þrír ólíkir leikstjórar og það er ótrúlega gaman að geta farið svona á milli. Í Samþykki fékk ég strax handrit í hendurnar og vann út frá því, í Ég dey fékk ég fyrst bara hugmynd og handritið þróaðist smám saman og tók breytingum fram í þessa viku en leikritið er blanda af eintali Charlotte við áhorfendur og leiknum, dönsuðum og sungnum senum. í Gallsteinum afa Gissa er unnin leikgerð upp úr barnabók og ákveðið hvað er tekið upp úr bókinni og hverju þarf að breyta og svo bætist tónlist og dans og fleira við. Mjög ólíkar nálganir en allar jafn skemmtilegar og spennandi.“

Blóðpollur undir stiga

Eins og áður sagði er Ég dey einleikur, skrifaður af Charlotte Böving sem jafnframt fer með hlutverkið og er framleiðandi. „Það er mjög gaman að vinna svona náið með einum leikara sem skrifar verkið og er inni á sviðinu allan tímann. Ég hef unnið töluvert með Charlotte, hún er mjög skapandi einstaklingur. Það er mjög gefandi að kasta hugmyndum á milli, sumar virka og enda á sviðinu og svo eru aðrar sem þarf að breyta og bæta, gera öðruvísi eða bara henda.“

Verkið snýst um dauðann sem er mjög þrungið efni, hvernig var ákveðið að nálgast það? „Charlotte er að fjalla um dauðann út frá mörgum sjónarhornum, og kannski ekki síst út frá lífinu. Dauðinn á sér auðvitað alls konar birtingarmyndir og tákn í okkar menningarheimi og táknrænar myndir en svo er Charlotte ekkert endilega að leika dauðann sjálfan. Hún er ekki í sama búningnum alla sýninguna og á meðan einn búningurinn vísar kannski meira í hið líkamlega er annar búningurinn meira kabaretttengdur og í litum djöfulsins, svartur og rauður. Þetta er vissulega þungt efni en ég get lofað því að verkið er mjög skemmtilegt og flutningurinn líka. Leikmyndin er stigi sem við getum bæði túlkað sem stiga upp til himna eða niður til heljar, stundum er þetta sýningarstigi í kabarettsýningu og svo er unnið með hugmyndir Jung um æviskeiðið sem stiga. Svo það er margt sem kemur saman í þessum eina stiga og blóðpollinum fyrir framan hann.“

Pælir ekki í fötum

Þrátt fyrir að vera stöðugt að vinna með það hvernig fatnaður getur verið lýsandi fyrir einstaklinga segist Þórunn María ekki mikið pæla í klæðaburði fólks sem hún hittir dagsdaglega. „Auðvitað sé ég ákveðna tendensa hjá fólki og stundum pæli ég í því en föt eru ekki það sem lífið snýst um.“ Hún býr í fallegu húsi í Vesturbæ Reykjavíkur með manninum sínum, Hávarði Tryggvasyni, kontrabassaleikara í Sinfóníuhljómsveitinni, dóttur, syni og einni kisu. Hún segist ekki sauma mikið á fjölskylduna. „Ég finn að ég þarf að hafa haft pásu frá vinnunni í ákveðinn tíma til að hafa áhuga á því að taka upp saumavélina fyrir mig og mína. Þær pásur hafa ekki verið allt of margar sem er jákvætt.“

Og í dag kveður hún pælingarnar  um dauðann og fer yfir í söngleik með börnum. „Þetta er bara eins og hlaðborð að fá þessa fjölbreytni. Alveg geggjað.“