Íslenska verðlauna-rafdúóið Ultra­flex sendi frá sér tónlistarmyndband á dögunum við lagið Baby. Myndbandið er tekið upp fyrir utan Kaíróborg í Egyptalandi á tónleikaferðalagi sveitarinnar á síðasta ári.

Ultraflex mynda Katrín Helga Andrésdóttir og Kari Jahnsen. Fyrsta plata þeirra, Visions of Ultra­flex, kom út árið 2020 og sveitin uppskar fyrir hana bæði Kraumsverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin, fyrir plötu ársins í flokki raftónlistar.

Stöllurnar stofnuðu sveitina skömmu fyrir heimsfaraldur.

Baby er önnur stuttskífa sveitarinnar á þessu ári og í fréttatilkynningu er laginu lýst sem ljúfum en grípandi ástarsöng. Texta lagsins er lýst sem daðri á dansgólfinu þar sem engu er að tapa, nema kannski mannorðinu.

Myndbandið við Baby gerðu Katrín Helga og Kari sjálfar, en Þorbjörn Kolbrúnarson og Felipe Mine Calvo sáu um myndatöku.