Víkingur Heiðar Ólafsson kemur fram á tónleikum í Hörpu þar sem hann leikur efnisskrá af einleiksplötu sem kom út hjá Deutsche Grammophon á síðasta ári. Á fyrri hluta tónleikanna verða verk eftir Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau og eftir hlé flytur Víkingur Heiðar Myndir á sýningu eftir Modest Mussorgsky í umritun Vladimirs Horowitz.

Til stóð að tónleikarnir yrðu opnunartónleikar Listahátíðar 2020 en vegna COVID hefur þeim verið margfrestað. Nú hefur loks verið slakað það mikið á að hægt er að halda þessa útgáfutónleika, ári eftir að platan kom út. „Ég var búinn að gefa það út að ég myndi gera allt sem þyrfti til að fá að halda þessa tónleika, jafnvel spila tvenna tónleika á dag með örfáum áheyrendum í salnum,“ segir Víkingur Heiðar. „Það sem skiptir mestu máli er að nú er ekki lengur tveggja metra regla í Eldborg þannig að um 800 manns geta verið í salnum og þá er miðað við allra ströngustu reglur. Þetta er ótrúlega mikill léttir, ég trúi því varla að þetta sé að gerast.“

Fyrstu tónleikarnir verða á morgun, föstudaginn 5. mars, og vegna mikillar aðsóknar verða aukatónleikar á laugardag, sunnudag og þriðjudag. Tónleikarnir verða einnig í Ísafjarðarkirkju 11. mars og Hofi á Akureyri, 13. og 14. mars. „Ég hef ekki spilað á landsbyggðinni í tíu ár því ég hef verið svo mikið í útlöndum en núna er hinn fullkomni tími til að gera þetta. Ég tók þátt í að vígja Hof fyrir tíu árum og það er mikið tilhlökkunarefni að spila þar aftur. Ég á góðar minningar frá Ísafirði sem er afar músíkalskur bær, þar er alltaf fullt hús á öllum tónleikum. Ég spilaði þar fyrst þegar ég var 16 ára á einleikstónleikum. Ég hlakka mikið til að koma þar fram,“ segir Víkingur Heiðar.

Kraftur listarinnar

Þótt langflestum verkefnum Víkings Heiðars hafi verið frestað vegna COVID, þar á meðal stórtónleikum í Carnegie Hall, hefur hann þó spilað furðu mikið erlendis undanfarið. „Ég hef verið einkennilega lánsamur í þessu óláni og leikið á tónleikum hér og þar, í Japan, Mið-Evrópu og Skandinavíu. Það má kannski segja að ég hafi oft verið síðasti maðurinn til að spila áður en allt lokar.

Í október spilaði ég á tvennum tónleikum í Berlín þegar búið var að tilkynna að tveimur dögum seinna yrðu ekki fleiri menningarviðburðir í boði um óákveðinn tíma. Áheyrendur klöppuðu endalaust, vildu ekki sleppa tónleikaupplifuninni og fara heim. Það var mjög fallegt að finna kraft listarinnar og hvaða áhrif hún hefur á fólk en það var líka sorg vegna þess að allt var að loka.

Í desember var ég í Japan þar sem ég var tvær vikur í sóttkví en spilaði svo á átta tónleikum þar sem selt var í hvert sæti, enda örfá COVID-tilfelli í landinu á þeim tíma. En um leið og ég var farinn var landinu lokað. Það gerðist það nákvæmlega sama í Noregi, þá var ég að spila í Bergen með þeirra frábæru fílharmóníusveit. Þar var ég eina viku í sóttkví og tvær vikur að spila. Svo fór ég heim til Íslands og frétti að búið væri að loka þar fyrir alla menningarviðburði. Þannig að ég hef verið síðastur að spila fyrir lokun en nú ætla ég að snúa blaðinu við og verða fyrstur til að spila eftir opnun, sem er miklu betri hugmynd.“

Plata frá Deutsche Grammophon

Víkingur Heiðar mun árita plötu sína á tónleikunum fyrir þá áheyrendur sem ekki eiga hana nú þegar. Hann segir að ný plata frá Deutsche Grammophon komi út 12. mars. „Hún heitir Reflections og er eins konar systraplata Debussy og Rameau plötunnar. Á henni eru verk eftir Debussy og Rameau, upptökur sem komust ekki á plötuna en ég vildi endilega gefa út. Við buðum svo erlendum og íslenskum tónlistarmönnum að taka mínar upptökur af gömlu plötunni og búa til nýja tónlist úr henni. Það er stórkostlegt að fá þessa músík frá þessum listamönnum, þar á meðal eru Hugar og Helgi Jónsson. Þarna er líka verk sem ég samdi út frá einni Debussy prelúdíunni, það er fyrsta tónverkið mitt sem kemur út á plötu.

Ég fæ fyrirfram eintök af plötunni frá Deutsche Grammophon og árita hana. Þannig að þótt það sé ár síðan síðasta plata kom út þá verða þetta samt útgáfutónleikar með nýrri plötu! Það hittist ótrúlega vel á.“

Deilir vangaveltum

Víkingur Heiðar segist mjög spenntur fyrir tónleikunum. „Ég ætla að gera það sama og ég hef gert á fyrri útgáfutónleikum, segja nokkur orð á milli sumra verka og deila vangaveltum mínum um tónlistina og þessi tónskáld og hvernig ég hugsa þetta samtal sem á sér stað á plötunni og efnisskrá tónleikanna.“

Að loknu hléi flytur Víkingur Heiðar eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Mussorgsky í umritun Vladimirs Horowitz. „Debussy, sem elskaði Mussorgsky, og Rameau fyrir hlé eru eins og myndir í tónum. Öll þessi þrjú tónskáld segja skýra og magnaða sögu í tónverkum sínum og það var tilvalið að brjóta upp dagskrána og flytja Myndir á sýningu. Það er eins og hátíð í bæ þegar það hljómar í Eldborg og vonandi svolítill upptaktur að upprisu tónlistarlífsins eftir langan vetrardvala.“