Sequences, sem nú er haldin í tíunda sinn, hefur það að markmiði að vera vettvangur fyrir framsækna myndlist með sérstaka áherslu á tímatengda miðla. Að hátíðinni standa listamannareknu sýningarstaðirnir Kling & Bang og Nýlistasafnið. „Kominn tími til“ er yfirskrift hátíðarinnar og vísar í samfélagsrými augnabliksins sem hátíðin skapar sér hverju sinni.

„Áherslur hátíðarinnar eru sérstaklega tengdar samstarfi. Við skynjum að listamenn vilja eiga í samtali og samstarfi, hvort sem það er við samfélagið, söguna eða aðra listamenn,“ segir Þóranna.

Á fjórða tug listamanna koma fram á hátíðinni. Meirihluti þeirra er í myndlistargeiranum en einstaka kemur þó úr ranni tónlistar.

„Hátíðin er stofnuð af myndlistarmönnum sem vettvangur fyrir framsækna myndlist. Myndlist er mjög lifandi miðill, er tímatengd, í föstu formi og getur átt sér stað á marga mismunandi máta. Ásamt því að hampa þessu hugum við einnig að samstarfi á milli listgreina. Þeir listamenn sem koma fram á hátíðinni eru listafólk sem vill vinna þvert á listgreinar. Þegar fólk úr mismunandi listgreinum mætist verður til kraftmikill skurðpunktur,“ segir Þóranna.

Um yfirskrift hátíðarinnar Kominn tími til segir Þráinn: „Við erum að leggja áherslu á þetta hverfula augnablik. Hátíðin er mótuð af þeim listamönnum sem taka þátt og svo hverfur hún og kemur aftur með öðrum áherslum.“

Meðal þeirra listamanna sem eiga verk á hátíðinni er kanadíski listamaðurinn Miles Greenberg, búsettur í New York. „Í Tjarnarbíói verður vídeósýning á sólarhrings­löngu gjörningsverki hans, Oyster­knife. Þessi gjörningur átti sér stað í streymi í Covid-lokunum í fyrra,“ segir Þráinn.

Annar erlendur listamaður á hátíðinni er Julia Eckhardt. „Hún er víóluleikari sem spilar á tónleikum í Hafnarborg verk eftir franska tónskáldið Éliane Radigue sem leggur ríka áherslu á samtal við flytjandann. Verkin eru samin fyrir flytjendur og út frá þeirra hljóðheimi og sýn. Fyrirlestur um Radigue verður haldinn í Listaháskólanum,“ segir Þráinn.

Elísabet Jökulsdóttir er heiðurslistamaður hátíðarinnar og mun opna hátíðina með Sköpunarsögum í húsi Vigdísar, 15. október. „Elísabet er þekkt fyrir ótrúlega krafta og töfra og samtal út á við. Hún er stöðugt að miðla mikilvægri rýni á samtíma sinn. Hún er góð fyrirmynd í listsköpun, er stöðugt leitandi,“ segir Þóranna.

Sequences mun teygja anga sína í allar áttir. Á Akureyri sýnir Freyja Reynisdóttir í Kaktus, Gunnar Jónsson sýnir í Gallerí Úthverfu á Ísafirði og Anna Margrét Ólafsdóttir í Skaftfelli, Seyðisfirði. „Úti á landi eru fjölmörg öflug listamannarekin rými og okkur fannst tilvalið að fá nokkur þeirra til að vera með á hátíðinni í ár,“ segir Þráinn.

Hvaða máli skiptir hátíðin? „Það fylgir þessari hátíð mikil gleði og eftirvænting og hefur alltaf verið svo. Við erum að fagna listaorkunni og listafólki sem er stöðugt að og hættir ekki,“ segir Þóranna. Þráinn bætir við: „Sequenses er uppskeruhátíð og hreyfiafl.“

Fjölbreytt dagskrá hátíðarinnar er á sequences.is.