Lífið

Uppskeruhátíð sólósenunnar

Elfar Logi Hannesson er stofnandi og listrænn stjórnandi Act alone. Hátíðin verður haldin á Suðureyri 9.-11. ágúst.

Elfar Logi Hannesson er stofnandi og listrænn stjórnandi Act alone. Fréttablaðið/Þórsteinn

Einleikjahátíðin Act alone verður haldin í fimmtánda sinn á Suðureyri við Súgandafjörð, 9.-11. ágúst. Elfar Logi Hannesson er stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar. „Hátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2004, sama ár og Aldrei fór ég suður. Hátíðirnar eru jafngamlar og komnar á unglingsár og það er ókeypis á þær báðar,“ segir hann.

Spurður um aðdraganda þess að hann fékk þá hugmynd að halda einleikjahátíð segir Elfar: „Ég er svo einfaldur að ég er með einleiki á heilanum. Ég bjó lengi í bænum og harkaði sem leikari en þegar ég flutti vestur um aldamótin 2000 komst ég að því að ég er eini starfandi leikarinn á Vestfjörðum sem býr þar árið um kring. Þá kom ekkert annað til greina en að setja upp einleiki. Ég gerði fyrst einleik um Mugg og svo um Stein Steinarr. Fólk skildi ekki alveg hvað einleikur var og hvort það væri eitthvað merkilegt við hann þannig að í staðinn fyrir að útskýra það ákvað ég að halda einleikjahátíð. Hún á að útskýra þetta enda hef ég ekki verið spurður mikið um þetta síðan.“

Act alone hátíðin var haldin í fyrsta sinn á Ísafirði árið 2004 og var þar allt til ársins 2011. „Þá hringdi eigandi Fisherman á Suðureyri, sem er hugsjónafyrirtæki, og spurði hvort ekki væri ráð að koma þangað. Það var ákveðið og síðan hefur hátíðin stækkað á alla kanta. Það er ekki sjálfgefið að íbúar hleypi stórum hópi inn á gafl til sín og þetta er nánast eins og innrás í lítið fallegt sjávarþorp. Sem betur fer hafa íbúar tekið þeirri innrás fagnandi, hafa umfaðmað hátíðina og sækja hana afskaplega vel.“

Jón Viðar á hverri einustu hátíð

Hátíðin er ætíð vel sótt og margir leggja henni lið. Elfar nefnir sérstaklega aðkomu Jóns Viðars Jónssonar, leiklistarfræðings og gagnrýnanda. „Jón Viðar hefur verið viðloðandi þessa hátíð frá því hann hélt fyrirlestur þar og tilkynnti áhorfendum að honum þættu einleikir afskaplega leiðinlegir. Hann hefur komið á hverja einustu hátíð og var stjórnarformaður um tíma,“ segir Elfar.

„Á þessari hátíð er reglan sú að menn verða að vera einir á sviðinu eða einir við listsköpunina,“ segir Elfar. „Fyrst var hátíðin hugsuð fyrir leikhúsverk, en svo hefur hugmyndin þróast og nú eru þarna einnig dans, tónlist, myndlist og ritlist. Hátíðin er uppskeruhátíð sólósenunnar.“

Hugsað út fyrir boxið

Margt er til skemmtunar á hátíðinni í ár. Þar er Kristín Ómarsdóttir skáld ársins og les úr verkum sínum með áherslu á leikhúsverkin. „Við sýnum þrjú einleiksverk, eitt á ensku, The Pain Tapestry, svo erum við með Jörund Ragnarsson sem sýnir afskaplega skemmtilegan einleik sem heitir Griðastaður og ung og efnileg leikkona, Ebba, sýnir verk sem heitir Guðmóðirin. Það er þannig verk að það þarf að sýna á miðnætti, en þar er hressilegt orðbragð. Þar sem þetta er fjölskylduhátíð er betra að börnin séu úti í tjaldi meðan á flutningnum stendur,“ segir Elfar.

„Við erum ekki með eins marga einleiki í ár og stundum áður og þurftum því að hugsa aðeins út fyrir boxið og ákváðum að hafa fókusinn á tónlist. „Pétur Örn, sem kallar sig Jesú, hefur hátíðina með söng og gamanmálum. Einnig koma fram Helga Möller, Jón Jónsson og Siggi Björns frá Flateyri sem kippir með vinkonu sinni, þýsku söngkonunni Franzisku Günther, sem er nýstirni í Berlín. Svo mætir Ómar Ragnarsson sem verður með uppistand og gamanmál og stjórnar fjöldasöng. Svo er ýmislegt annað bráðskemmtilegt á dagskrá.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Tourette-uppi­stand til styrktar góð­gerðar­sam­tökum

Menning

Efna til hand­rita­sam­keppni fyrir hljóð­bækur

Kynningar

Léttum fólki lífið

Auglýsing

Nýjast

Dorma býður frábært úrval fermingarrúma

Bræður geðhjálpast að

Hreyfiafl þarf til að knýja mann áfram

Reyndi að komast um borð í flugvél nakinn

Dæm­ir um trú­v­erð­ug­­leik­a þekktr­a kvik­­mynd­a­­sen­a

Lands­liðs­maður í fót­bolta selur kveðjur

Auglýsing