Harry Bretaprins segir að fólk sem telur sig vera í leiðinlegri vinnu eigi að geta hætt án þess að það sé álitið slæmt.

Prinsinn hefur verið opinskár um geðheilbrigðismál undanfarin ár.

„Þetta hefur aldrei verið mikilvægara og fólk er farið að taka eftir þessu. Stærsta verkefnið í þessu er að opna umræðuna og halda henni áfram.“

Hann segir að með aukinni þekkingu á geðheilbrigði fjölgi uppsögnum sem þessum. „Þetta er merki um það að með sjálfsvitund kemur þörfin fyrir breytingu. Margir víðs vegar í heiminum hafa verið fastir í störfum sem færðu þeim ekki gleði og núna eru geðheilbrigði og hamingja þeirra í forgrunni. Þessu á að fagna.“