Eva Dögg er viðskiptafræðingur með markaðsmenntun, fjögurra barna móðir og vinnur að hluta til í fjölskyldufyrirtækinu Bako Ísberg þar sem hún sér um samfélagsmiðla og það sem þarf, eins og hún segir sjálf.

„Það má segja að ég sé svona markaðsstjóri til leigu. Ég vinn einnig fyrir ýmis fyrirtæki þar sem ég sé um samfélagsmiðla og tengingar þeirra við fjölmiðla sem og ráðgjöf við almenna markaðssetningu. En ég er frumkvöðull í eðli mínu og alltaf með spennandi járn í eldinum enda fæ ég milljón dollara hugmyndir oft á dag,“ segir Eva.

Elskar föt með karakter

Eva hefur frá blautu barnsbeini haft sterkar skoðanir á fötum og skóm og segist sjá að þetta gen erfist í börnum hennar.

„Í eðli mínu er ég með klassískan fatastíl en það er samt uppreisnarseggur í mér þegar kemur að fatavali. Ég kem oft auga á fylgihluti og föt sem aðrir kannski fatta ekki fyrr en seinna og ég elska allt sem er aðeins öðruvísi. Ég elska föt með karakter sem ég get átt lengi.“

Þegar kemur að vali á sniðum, er eitthvað sem heillar þig frekar en annað?

„Skyndikaup eru ekki til í mér og ég veit hvaða snið klæða mig. Þegar ákveðið snið kemst aftur í tísku veit ég alveg ef það er ekki fyrir mig og sleppi því. Það er nefnilega þannig að það klæða mann alls ekki öll snið. Við konur erum svo ólíkar í vaxtarlagi og það segir sig sjálft að það getur aldrei orðið nein ríkistíska, en ef svo væri þá klæðir hún alls ekki alla.“

Þægileg jogging-föt hafa tekið yfir á tímum heimavinnu vegna COVID. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Þægilegur heimafatnaður í tísku

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Já, ég elska fallegar yfirhafnir og jakka því ef maður á fallega yfirhöfn, skó og sólgleraugu sem klæða mann kemst maður liggur við upp með að skella sér út í búð ófarðaður í jogging-galla eða náttfötum. Annars elska ég kjóla í öllum sniðum og fagna kjólatískunni sem nú er. Svo viðurkenni ég alveg að elska smart kósíföt enda mikið til af flottum jogging-göllum núna. Á tímum COVID er gaman að sjá hvað tískan breytist mikið og margir hönnuðir leggja upp með þægilegan heimafatnað eins og jogging-fatnað. Fyrir nokkrum árum hefði ég ekki látið sjá mig í jogging-galla en nú á ég nokkra og elska að vinna heima í slíkum fatnaði.“

Choco Chanel í dálæti

Áttu þér uppáhaldshönnuð?

„Já, mitt uppáhald er algjörlega goðsögnin hún Coco Chanel. Ég væri til í að eiga fullt af flíkum sem hún hannaði á sínum tíma, ég tala nú ekki um allt skartið, algjörlega tímalaus tíska. Ég hef líka alltaf verið aðdáandi Ralph Lauren en aðallega þar sem að mér finnst saga hans svo frábær eða hvernig hann varð ofur vinsæll. Ekki einu sinni menntaður fatahönnuður en einfaldlega með nef fyrir því sem koma skal og sannur frumkvöðull. Ég elska líka marga gamla hönnuði á borð við Dior, Yves Saint Laurent og fleiri, og svo fannst mér gamla Halston-tískan skemmtileg.“

Eva elskar þægilegu kjólatískuna sem verður allsráðandi í sumar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Vandlát á flíkur og á þær í mörg ár

Eva hefur á hreinu hvaða tískumerki heilla hana mest þessa dagana.

„Ég heillast mikið að skandinavískri hönnun því þeir vita hvað við viljum. Það eru mörg flott skandinavísk merki til hér á landi eins og til dæmis Anie Bing, Munthe plus Simonsen, Malene Birger, Baum und Pferdgarten og Ilse Jacobsen svo fátt eitt sé nefnt.

Annars elska ég að skoða merki á Ítalíu og Frakklandi, fátt skemmtilegra en að finna flíkur í litlum verslunum í París, Róm og í Veróna.“

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum hverju sinni eða áttu þér uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég kaupi yfirleitt ekki einnota flíkur, ég á flíkur í mörg, mörg ár. Ég vil vandaðan fatnað og efni, kannski af því að ég er löngu búin með þennan skyndikaupapakka. Ég fattaði það mjög ung. Þegar ég versla mér föt hef ég í huga hvort ég gæti hugsað mér að fara í fötunum út að borða um kvöldið og ef svarið er já þá steinliggur flíkin oftast. Ég á auðvitað mikið af svörtum fötum en annars er ég mjög litaglöð og elska áberandi prent og liti. Ég vel mér þá oft jakka eða frakka í áberandi prenti eða lit.“

Víðir kjólar og samfestingar

Hvað getur þú sagt okkur um stefnur og strauma í vortískunni?

„Ég elska tískuna núna. Hún snýst um þægindi og mikið um jogging-efni og víða kjóla. Ég elska litina sem nú eru í tísku, pastel, appelsínugult, gult, grænt, rautt, bleikt og fjólublátt. Kjólatískan sem nú er í gangi er æðisleg og svo elska ég að eiga nokkra samfestinga. Ég man þegar ég keypti þann fyrsta hjá Ralph Lauren í New York og fjölskyldan fékk sjokk og sagði að ég væri eins og Super Mario-bræður. Samfestingatískan hefur heldur betur farið á flug síðastliðin fjögur ár eða svo. Annars er ég hrifin af víðu buxnatískunni, yfirhöfnum og kápum og svo finnst mér alltaf gaman að sjá klúta og hálsklúta komast í tísku og þó svo að ég hafi aldrei náð almennilega þessari klútatísku finnst mér hún flott. Nú er líka gallaefni í einu og öllu, sem ég fíla þannig ég fer full tilhlökkunar inn í sumarið.

Kápur og yfirhafnir eru í dálæti hjá Evu, sem og alls konar mynstur. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Skófíkill sem elskar strigaskó

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Ég er alveg að fíla þessa grófbotna skó sem eru í tísku núna og svo elska ég strigaskó. Ég er af kynslóðinni sem hljóp um allan heim á háum hælum og á eftir litlum börnum í mörg, mörg ár. Ég fagna flatbotna skóm þó svo að ég fari vissulega í hæla endrum og eins. Skótískan fer í hringi eins og annað, ég er í raun skófíkill og væri til í að eiga miklu meira af skóm og töskum.“

Andlitsgríman einn af fylgihlutum nútímans

Þegar þú velur fylgihluti, hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Ég elska fallegar töskur, en verð samt að nefna andlitsgrímuna. Þó svo að margir gagnrýni grímuna er hún engu að síður partur af lífi okkar nú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og verður eflaust eitthvað áfram. Svo eru það sólgleraugu í yfirstærð. Annars finnst mér gaman að eiga fullt af fylgihlutum því með þeim get ég breytt ég fatnaði sem ég hef átt lengi. Ég hef gengið í gegnum hálsmenatískuna svo oft að ég þarf aðeins hvíld á henni. Í staðinn vel ég einn flottan skartgrip, einhverja klassík sem mér þykir vænt um og er í hlutverki flotts fylgihlutar sem er eins og upphrópunarmerki á eftir setningu.“