Jón Steindór Valdimarsson hverfur nú af Alþingi þar sem hann hefur setið fyrir Viðreisn í fimm ár. Hann hefur ekki farið leynt með að úrslit þingkosninganna voru honum vonbrigði en hefur þó aldrei liðið betur og rekur það til þess að hann hefur verið á vegan fæði í um það bil tíu mánuði.

„Ég er ekki viss um að ég rísi undir því að vera fullgildur vegan. Hitt er hins vegar rétt að ég hef verið á vegan fæði í tæpa tíu mánuði,“ segir Jón Steindór þegar hann er spurður út í nýja lífsstílinn sem segja má að hann hafi tekið upp á nokkuð pólitískum forsendum.

„Satt að segja gerðist það ekki að eigin frumkvæði heldur var kveikjan að því áskorun frá Uppreisn, sem er ungliðahreyfing Viðreisnar, á þáverandi þingflokk að gerast vegan í viku,“ segir Jón Steindór sem tók áskoruninni.

Féll á Prins Póló

„Þetta var nú, satt að segja, nokkuð erfitt til að byrja með en ég er þrár og vildi ekki gefast upp. Að vikunni liðinni fór það svo að ég ákvað að halda áfram um einhvern tíma og nú eru að verða liðnir tíu mánuðir.

Á þessari vegferð hef ég einu sinni farið út af sporinu þegar ég sporðrenndi einu Prins Póló á golfvellinum í hugsunarleysi! Að öðru leyti hef ég ekki neytt dýraafurða af neinu tagi þennan tíma.“

Þingmaðurinn fyrrverandi er oft spurður hvort hann sakni ekki einhvers sem nú er forboðin fæða og hann neitar því ekki. „Auðvitað. Skyr og rjómi, ís eða góð steik eru allt hlutir sem ég kann vel að meta, sem og góður fiskur. Ég hef hins vegar komist að því að mataræði er mikill vani og það er svo margt annað sem er gott en dýraafurðir. Nú fæ ég mér ólífur á milli mála og fæ mér oft heimagert poppkorn á kvöldin í staðinn fyrir kex, osta eða sælgæti.“

Margir hissa

Jón Steindór segir að þessi lífsstílsbreyting hjá 63 ára gömlum manni veki víða furðu. „Það eru margir hissa á þessu uppátæki hjá mér og gera að mér góðlátlegt grín. Það eru helst karlar. Mér er nú slétt sama um það. Aðrir öfunda mig,“ segir Jón Steindór og bendir á það sem hann kallar „skemmtileg hliðaráhrif“ hins breytta mataræðis.

„Þau eru að ég hef losnað við milli 15 og 20 kíló á þessum tíma og mátti vel við því. Allt hefur þetta leitt til þess að mér líður almennt betur. Þá held ég að það sé almennt skynsamlegt að draga úr neyslu dýraafurða út frá umhverfissjónarmiðum.

Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að hætta á þessu mataræði þótt ég hafi ekki strengt nein heit í því samhengi og hef hvorki lofað mér né öðrum að vera á veganfæði til æviloka.“