Ég legg ríka áherslu á að lög um jafnlaunavottun nái fram að ganga og á áframhaldandi samstarf ráðuneytisins við samtök aðila vinnumarkaðarins til að vinna að jafnlaunamálum og jafnrétti á vinnumarkaði. Á þessu þingi mun ég mæla fyrir þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og frumvörpum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og um jafna meðferð á vinnumarkaði,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Mikil kynjaskipting einkennir vinnumarkaðinn og staðalmyndir kynjanna hefta valfrelsi stúlkna og drengja, segir Ásmundur „Ábyrgð á heimilisstörfum hvílir enn frekar á konum. Þær taka mun lengra fæðingarorlof og sinna ólaunaðri vinnu við umönnun barna og eldri foreldra í meiri mæli en karlar. Margar konur velja hlutastörf til að geta betur samræmt vinnu- og fjölskylduábyrgð. Allir þessir þættir byggjast á rótgrónum hugmyndum um staðalmyndir kynjanna og hafa margvísleg neikvæð áhrif á einstaklinga, vinnumarkaðinn og samfélagið í heild sinni.“

Atvinnuþátttaka með því mesta í heiminum

Af OECD-ríkjunum mælist atvinnuþátttaka hvað mest á Íslandi og hlutfall kvenna á vinnumarkaði í alþjóðlegum samanburði með því hæsta sem þekkist. Þrátt fyrir það eru fáar konur sýnilegar í stjórnunarstöðum og karlmenn fámennir í störfum sem tengjast umönnun, aðhlynningu og kennslu. Horfa þarf til aðgerða sem geta snúið þessari þróun við. Jafnlaunavottun er ætlað að framfylgja gildandi jafnréttislögum sem leggja bann við að konum og körlum séu greidd mismunandi laun fyrir sömu eða sambærileg störf nema slíkt sé unnt að réttlæta með málefnalegum ástæðum.

„Jafnlaunavottun miðar einnig að því að auka starfsánægju og trú starfsfólks á að mannauðsstjórnun atvinnurekanda sé fagleg og að bæta sýn stjórnenda á starfsmanna- og launamál, auðvelda þeim starfsmannahald og bæta rökstuðning við launaákvarðanir. Afraksturinn verður gagnsærra og réttlátara launakerfi,“ segir Ásmundur. „Frá árinu 1961 hefur vilji löggjafans verið skýr. Kynbundinn launamunur er engu að síður meinsemd sem ekki hefur tekist að vinna bug á. Í ljósi þess hversu ríkir þeir hagsmunir eru að einstaklingum sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis um kaup og kjör er ég þeirrar skoðunar að lögfesting jafnlaunavottunar hafi verið nauðsynleg.“

Hvernig verður eftirliti með jafnlaunavottun háttað?

„Samtök aðila vinnumarkaðarins annast eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri öðlist vottun og endurnýi hana á þriggja ára fresti. Jafnréttisstofa getur beint þeim fyrirmælum til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar að gera úrbætur innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum. Ég á ekki von á öðru en að jafnlaunavottun muni skila góðum árangri til aukins jafnréttis á vinnumarkaði. Velferðarráðuneytið hefur í samstarfi við Hagstofu Íslands og aðila á vinnumarkaði staðið fyrir gerð rannsókna á kynbundnum launamun og mun framvegis birta niðurstöður slíkra rannsókna annað hvert ár m.a. til að fylgja lögfestingu jafnlaunavottunar eftir,“ segir Ásmundur.

Stjórnvöld bregðast við #metoo

Í kjölfar #metoo byltingarinnar hefur hulunni verið svipt af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem konur verða fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Ásmundur segir stjórnvöld þurfi að bregðast við af festu.

„Unnið er að skipan nefndar til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og eineltis á íslenskum vinnumarkaði og aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál. Einnig verður skipaður aðgerðahópur til að vinna markvisst gegn þessum vanda á vinnustöðum. Einnig er gert ráð fyrir að verkefnastjóri verði ráðinn til að fylgja þessum málum eftir.

Þá er í smíðum áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi þar sem m.a. er kallað eftir fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum.

Starfshópi verður falið að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot með það að markmiði að koma í veg fyrir endurtekið ofbeldi og ofbeldisbrot almennt.“