Borgar­leik­húsið frum­sýnir leik­ritið Út­lendingurinn – morð­gáta á föstu­dag í leik­stjórn Péturs Ár­manns­sonar. Höfundur verksins er Frið­geir Einars­son.

Spurður um kveikjuna að verkinu segir Frið­geir: „Ég flutti til Bergen á síðasta ári þar sem konan mín er í námi. Ég var, eins og maður sem flytur til nýs lands, leitandi að per­sónu­leika staðarins og ein­kennum og varð þess f ljótt á­skynja að Bergen er ekki beint miðja al­heimsins þótt þetta sé til­tölu­lega stór bær.

Ein á­huga­verðasta seinni tíma sagan sem ég heyrði í Bergen er 50 ára gamalt lík­fundar­mál. Árið 1970 fannst illa leikið lík af konu inni í Ís­dal fyrir utan Bergen, rétt hjá þar sem ég á heima. Fljót­lega kom í ljós að konan var út­lendingur en enginn vissi neitt meira um hana. Þegar farið var að grennslast fyrir um hana varð sagan enn dular­fyllri. Í ljós kom að konan hafði dvalist á hóteli í Bergen undir fölsku nafni og ferðast um Evrópu undir fölsku f lag­gi. Far­angur hennar fannst á lestar­stöð og miðar höfðu verið klipptir af öllum fötum hennar, þannig að ekki var hægt að vita hvar þau voru fram­leidd, auk þess höfðu merkingar verið fjar­lægðar af lyfjum og per­sónu­legum eigum hennar. Dular­gervi voru í far­angrinum. Get­gátur voru uppi um að konan hefði verið austur-evrópskur njósnari.“

Skrifaði hlut­verk fyrir sig

Frið­geir segir að enn sé ekki vitað hvaða kona þetta var. Spurður hvort hann upp­lýsi málið í leik­riti sínu segir hann: „Ég er kannski ó­lík­legastur af öllum til að upp­lýsa málið. Þar til nú hef ég ekki sýnt glæpa­sögum og glæpa­sagna­menningu neinn sér­stakan á­huga. Ætli það megi ekki segja að ég upp­lýsi þetta á minn hátt.“

Frið­geir fer með burðar­hlut­verkið í sýningunni. „Þetta er hlut­verk sem ég skrifa fyrir sjálfan mig. Þarna er maður sem heitir Frið­geir, er ný­fluttur til Bergen og er að reyna að finna sér hlut­verk á nýjum stað. Hann verður gagn­tekinn af þessari sögu og ver sí­fellt meiri tíma í að grand­skoða hana og flækist inn í heilt sam­fé­lag á­huga­spæjara.“

Snorri í ýmsum búningum

Auk Frið­geirs kemur Snorri Helga­son fram í sýningunni en hann semur tón­listina í henni. „Tón­list Snorra er mjög fal­leg og svo fram­kallar hann ýmis hljóð. Ég píndi hann til að taka að sér eitt og eitt hlut­verk, þannig að hann þarf að bregða sér í ýmsa búninga,“ segir Frið­geir.

Frið­geir og Snorri voru síðast saman á sviði í verð­launa­sýningunni Club Romanti­ca sem frum­sýnd var á síðasta ári, en í henni freistuðu þeir fé­lagar þess að finna eig­anda týndra mynda­albú­ma sem þeir höfðu undir höndum. Voru list­rænir stjórn­endur þá flestir þeir sömu og í Út­lendingnum. „Í þetta skipti göngum við enn lengra í að þykjast vera spæjarar og reynum að fá á­horf­endur til að hugsa um ráð­gátuna með okkur, reynum að f lytja þá með okkur á vett­vang í Bergen,“ bætir Frið­geir við.