Gamanverkið Fullorðin frá Leikfélagi Akureyrar var upphaflega forsýnsýnt í desember í Samkomuhúsinu á Akureyri. Leikarar verksins eru Vilhjálmur B. Bragason, Birna Pétursdóttir og Árni Beinteinn Árnason, en þau sömdu einnig verkið. Nú standa yfir æfingar á leikritinu Benedikt Búálfur í samkomuhúsinu og því var ákveðið að færa sýningar á Fullorðin í Hof, en fyrsta sýningin þar er í kvöld.

„Við erum þrjú að leika í sýningunni og hefðum ekki mátt vera fleiri, því þetta eru ekki nema fimmtíu persónur sem koma fyrir í verkinu,“ segir Árni Beinteinn sposkur.

„Við erum öll með leiklistarmenntun en komum úr ólíkum áttum og reynum eftir fremsta megni að bæta fyrir veikleika hvert annars á sviðinu með misgóðum árangri,“ bætir Birna við.

Vilhjálmur segir þau hafa skoðað hver þýðing þess er að vera fullorðin manneskja og hvernig fullorðinsárin birtast okkur á mismunandi aldursskeiðum.

„Við förum svolítið í saumana á þessum stöðugu vonbrigðum sem fylgja þessum skelfilegu örlögum, að eldast,“ segir hann.

Hvernig kom hugmyndin til ykkar?

„Við fórum saman til heilara,“ svarar Vilhjálmur.

„Sem er mjög fullorðins,“ segir Birna og hlær.

„Við ætluðum að reyna að komast að því hvað væri eiginlega að okkur en ákváðum svo frekar að gera bara sýningu,“ bætir Árni Beinteinn við.

Sömdu allt frá grunni

Þremenningarnir sömdu allt frá grunni, texta og tónlist, en í sýningunni eru sjö frumsamin og ólík lög með skrautlegum tónlistaratriðum. Að sögn Birnu gekk samvinnan mjög vel og þau hafi strax smollið saman sem teymi.

„Ferlið var mjög fjölbreytt og við nutum góðs af því að vegna aðstæðna þurfti að fresta frumsýningu, svo við eyddum miklum tíma í að skapa efni. Sum atriði skrifuðum við saman frá grunni en önnur urðu til í spuna á sviðinu,“ segir Vilhjálmur.

„Að búa til grín er mjög áhugavert ferli, því það þarf að huga að smáatriðum og á endanum er markmiðið alltaf að finna það sem þjónar gríninu í hverju atriði sem best. Við fjöllum um fullorðinsárin frá ýmsum sjónarhornum svo allir ættu að geta hlegið,“ segir Árni Beinteinn.

Hvað er það að vera fullorðin?

Birna er snögg til svars: „Fólk má endilega senda okkur línu ef það veit svarið við þessari spurningu, því við höfum ekki hugmynd.“

En hvað ætli sé mest fullorðins við þau sjálf?

„Ég er til dæmis gift og nota sérstök innlegg í skóna mína, Árni er líka kvæntur og notar svona rúðusköfu með áföstum hanska og Villi er alltaf í dýrum og endingargóðum útivistarfatnaði. Allt er þetta glatað og fullorðins,“ segir Birna.

Góðar viðtökur

Vilhjálmur segir Birnu besta í að þykjast vera fullorðin, en að þeir Árni sjái í gegnum hana, þrátt fyrir að margir láti glepjast.

„Villi lúkkar mjög vel á blaði, en það er augljóst að hann veit ekkert hvað hann er að gera,“ segir Árni um vin sinn.

„Árni er með allt á hreinu, þangað til þú kynnist honum. Hann er með margar beinagrindur í skápnum,“ bætir Birna við.

Þau segja þau nokkur skilyrðin sem þurfi að uppfylla til að komast í fullorðins-klúbbinn.

„Það er þetta klassíska; að mennta sig, fá góða vinnu, eignast maka, börn og fasteignir,“ segir Árni.

„En svo fer þetta náttúrlega allt í steik hjá fólki. Gjaldþrot, skilnaðir, „reunion“ og alls konar óvænt gleði sem lífið færir okkur með vaxandi aldri,“ segir Vilhjálmur.

Þríeykið segir að það hafi óneitanlega verið skrýtin tilfinning að forsýna verkið fyrir nokkrar hræður, þegar samkomutakmarkanir voru sem harðastar.

„En þakið ætlaði svo að rifna af húsinu þegar fimmtíu manns máttu koma saman og það hefur bara farið fjölgandi,“ segir Vilhjálmur.

Svörin koma á sýningunni

Öll eru þau sammála um að mikill uppgangur hafi verið í leikhúslífinu á Akureyri undanfarið.

„Leikfélagið, með Mörtu Nordal leikhússtjóra í fararbroddi, hefur veðjað á ungt og upprennandi listafólk sem flykkist hér að og verkefnin eru fjölbreytt og spennandi,“ segir Birna.

„Þrátt fyrir takmarkanir vetrarins hefur sköpunargleðin fengið að njóta sín og við höfum getað sýnt og unnið sýningu um berklafaraldurinn, þessa grínsýningu og svo styttist í frumsýningu á fjölskyldusöngleiknum um Benedikt búálf. Það er einstaklega gott að vera hérna fyrir norðan og alveg sérstök orka í loftinu,“ segir Árni Beinteinn.

„Þau þora náttúrlega ekki að segja annað, Akureyringar eru svo ofbeldishneigðir,“ grínast Vilhjálmur.

Hafið þið lært eitthvað nýtt um hlutskipti fullorðinna við gerð sýningarinnar?

„Já, eftir þrotlausa rannsóknarvinnu þá vitum við sannleikann en við getum ekki gefið það upp svona á opinberum vettvangi,“ svarar Árni.

„Nema auðvitað ef fólk kemur á sýninguna. Þar er öll svörin að finna,“ bætir Vilhjálmur við.

„En í grunninn vitum við náttúrlega ekkert hvað við erum að gera. Ekki frekar en nokkur annar, fólk er bara að gera sitt besta,“ segir Birna að lokum.

Uppselt hefur verið á allar sýningar og núna út febrúar. Hægt er að kaupa miða á Fullorðin á mak.is