Sýningin Ad Infinitum í Gerðarsafni er hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands. Sýningin er unnin sérstaklega fyrir rými Gerðarsafns en um er að ræða innsetningu á mörkum myndlistar og tónlistar. Systkinin Elín og Úlfur hafa farið ólíkar leiðir í listinni, Elín sem myndlistarmaður og Úlfur sem tónskáld. Þetta er þó alls ekki í fyrsta skiptið sem þau tvö vinna saman.

Elín: „Við höfum unnið áður saman, alveg þó nokkuð margar sýningar. En stundum hefur það verið þannig að ég hef verið að sýna einhverja innsetningu og leitað til Úlfs til að bæta við ákveðnu hljóði sem hann hefur þá hannað fyrir innsetninguna en í þessu tilfelli komum við svolítið öðruvísi að þessu. Við fórum á einhvers konar hugmyndatrúnó og hugmyndirnar fæddust svolítið samhliða.“

Hvernig mynduð þið lýsa sýningunni fyrir áhorfendum sem hafa enga hugmynd um hvað þeir eru að fara út í?

Elín: „Það er alltaf svolítið erfitt. Ég hef alltaf reynt að forðast það að útskýra hvað fólk á að upplifa eða um hvað nákvæmlega verkið snýst vegna þess að við erum öll svo ólík og við skynjum heiminn öll á svo ótrúlega ólíkan hátt og það er líka bara háð því hvað við erum að gera eða hvernig við vöknuðum þann daginn.“

Úrtak af óreiðukenndu fyrirbæri

Í sýningunni gengur áhorfandinn inn í myrkvaðan sal Gerðarsafns þar sem heyra má hljóðverk Úlfs ferðast um rýmið. Í miðjum salnum er svo frístandandi rými með hringlaga veggjum þar sem hægt er að ganga inn í og virða fyrir sér sjónrænt verk Elínar.

Elín: „Þar inni eru 500 ljósmyndir sem eru einhvers konar dagbók, ljósmyndir sem ég hef safnað að mér síðastliðin fimm ár á göngu minni um borgir, aðallega Reykjavík en líka aðrar borgir. Þetta eru ljósmyndir af gúmmíteygjum, það er ekki flóknara en það. Svo í miðjunni á þessu rými er lítill skúlptúr sem er gylltur fimm laufa smári sem ég fann. Ég hef verið að safna smárum undanfarin ár. Bæði þessi verk fjalla um leit að einhverju sem maður veit ekki hvað er.“

Frá uppsetningu verksins
fréttablaðið/sigtryggur ari

Úlfur: „Í raun og veru er þetta einhvers konar úrtak af óreiðukenndu fyrirbæri sem er bara það hvaða form teygjur búa til þegar þær lenda á götunni og eru ekki lengur í notkun. Við það að sjá svona mörg form rísa upp úr óreiðunni þá fer maður sjálfkrafa að setja einhverja merkingu í það eða sjá form og munstur. Svo er þessi smári í miðjunni einhvern veginn kraftaverkið, undantekningin sem sannar regluna. Eitthvað sem er algjörlega „random“ fyrirbæri en líka hundrað prósent einstakt.“

Úlfur segist hafa hugsað mikið um það í sköpunarferlinu hvernig samband manneskjunnar er við raunveruleikann og hvernig við erum gjörn á að finna merkingu í hlutum sem eru algjörlega óreiðukenndir.

„Mig langaði einhvern veginn í framhaldi af því að skapa hljóðverk sem er tenging við óreiðuna og óendanleikann og er þá hljóð sem ferðast um rýmið á hátt sem er óreiðukenndur en fer í hring og myndar óregluleg form aftur og aftur og er aldrei eins jafnvel þótt sýningin stæði í 40.000 ár,“ segir hann.

Öll mörk að mást út

Elín og Úlfur segjast bæði hafa mikinn áhuga á því hvernig hægt er að miðla listrænni upplifun handan orða sem á hvorki uppruna sinn í texta né hugmyndafræði. Það gefur því auga leið að erfitt getur reynst að lýsa slíku verki í gegnum texta.

Elín: „Já, fólk verður bara að mæta.“

Úlfur: „Algjörlega, það er svo margt sem er handan orða og ég held að það sé, sérstaklega í músíkinni, eitthvað sem er spennandi að reyna að uppgötva, finna og vinna með. Mér finnst Elínu hafa tekist að gera það sama með sjónrænum hætti sem hafði ótrúlega sterk áhrif á mig þegar ég sá myndina, þannig gekk þetta mjög náttúrulega saman.“

Sýningin er sett upp í tengslum við Ljósmyndahátíð Íslands, hvernig talar verkið inn í hátíðina?

Elín: „Ég held að það geri það nú bara með því að hafa 500 ljósmyndir á sýningunni. En ég held að allar svona hugmyndir um flokka í sjónrænni menningu, það eru öll mörk að mást út og hafa verið að gera það undanfarin 20, 30 ár og það verður alltaf meira og meira. Þetta er í rauninni allt sami hluturinn og ég held að sá tími sé svolítið liðinn að við séum að flokka list.“