Á skrifstofum finnst mér mikilvægt að geta hugsað með sér: „Hér er fallegt og notalegt að vera og hér líður mér vel,“ segir Guðbjörg Gissurardóttir, útgefandi og ritstjóri tímaritsins Í boði náttúrunnar.

Guðbjörg vinnur einmitt blaðið mitt í fagurri náttúru Elliðavatns þar sem hún hefur verið með skrifstofu í gamla Elliðavatnsbænum í áratug.

„Þegar ég hóf undirbúning að útgáfu tímaritsins fyrir tíu árum var ég heima í stofu og fann að það var ekkert sniðugt. Þá benti vinkona mér á að hægt væri að fá leigð herbergi við Elliðavatn og úr því að ég var með tímarit sem hét Í boði náttúrunnar fannst mér upplagt að starfrækja skrifstofuna umvafin náttúrunni,“ segir Guðbjörg.

Tekur fundi á náttúrugöngu

Útsýni skiptir Guðbjörgu miklu.

„Ég heyrði eitt sinn umhverfissálfræðing útskýra að góð áhrif náttúrunnar væru þríþætt. Það fyrsta væri að horfa út í náttúruna, annað væri að vera úti í náttúrunni og það þriðja að gera eitthvað í náttúrunni. Hér er ég alltaf á fyrsta stiginu. Ég lít upp frá tölvunni og horfi út á fagurt vatn og fjallasýn og finn hvernig batteríin endurhlaðast,“ segir Guðbjörg sem sér yfir Elliðavatn og Esjuna út um gluggana á gamla Elliðavatnsbænum.

„Hér upplifi ég sömu vá-áhrifin við það eitt að líta út um gluggana alla daga. Það er „Vá, birtan!“ eða „Vá, skýin!“ eða „Vá, litirnir!“ því árstíðirnar setja sterkan svip á náttúruna og veðrið sýnir öll sín andlit og breytist oft á dag,“ upplýsir Guðbjörg, sem er nátengd náttúrufegurð og kyrrð á vinnudögum sínum við Elliðavatn.

Guðbjörg notar fallega náttúruna mikið í vinnu sinni. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

„Einn af aðalkostum þess að hafa skrifstofu hér er að geta stigið út á hlað og vera strax kominn út í náttúruna. Hér er endalaust af göngustígum og það reyni ég að nýta mér eins og ég get með stuttum gönguferðum í hádeginu. Ég reyni meira að segja að taka fundi úti og ræða málin á göngu. Það er kærkomin tilbreyting að komast frá tölvunni og vera með athyglina á réttum stað, eða hér og nú. Það skýrir hugsun að ganga um úti og þá heyrir maður betur í sjálfum sér og öðrum,“ segir Guðbjörg sem stundum ætlar sér í örstuttan göngutúr um Heiðmörk en kemur ekki til baka fyrr en alllöngu seinna.

„Þá sé ég eitthvað svo undurfagurt í náttúrunni og gleymi mér við að taka myndir. Maður er þá staddur mitt í núinu, upptendrast af góðri orku og stundum finn ég mér góðan bekk og er þar í stuttri hugleiðslu því útgáfubransanum getur fylgt heilmikið álag og þetta hefur haldið mér á jörðinni.“

Gott að losna við freistingar

Inni á skrifstofu Guðbjargar ríkir heimilislegt og afslappað andrúmsloft.

„Mér finnst mikilvægt að hafa umhverfið aðlaðandi, fallegt og upplífgandi liti. Ég legg upp úr því að vera með verkin okkar á veggjum og forðast sterílt og stíft andrúmsloft. Umhverfið er rómantískt og stundum þykir mér notalegt að kveikja á kerti, jafnvel þótt öll ljós séu kveikt, bara upp á stemninguna,“ segir Guðbjörg þar sem hún tínir til girnilegan kost fyrir hádegismat á Elliðavatni.

„Héðan stekkur maður ekkert í búð og það er einmitt svo gott. Hér er engin sjoppa né óþarfa freistingar, sem sparar bæði tíma og peninga. Því er ég alltaf með fullan ísskáp af ýmsu góðgæti og bý til góða salatrétti. Mér finnst það mikill kostur og vil borða nóg salat í hádeginu því þá er maður búinn að taka þann pakka hér.“

Guðbjörg segir kost hvað langt sé í búð frá Elliðavatni því það spari bæði tíma og peninga að vera ekki með freistingar á hverju horni í vinnunni. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Á snjóþungum vetrum hefur Guðbjörg þurft að gæta þess að verða ekki innlyksa í snjó.

„Maður þarf að hafa varann á og stundum drífa sig heim til að lokast ekki inni eða festast í skafli því þá er ekki víst að nokkur komi hlaupandi næstu klukkutímana. Ég er þó heppin að deila húsnæði með Skógræktarfélagi Reykjavíkur og þá er gott að hafa skógarhöggsfólkið sér til aðstoðar,“ segir Guðbjörg kát.

Hún þarf iðulega að gefa þeim sem eiga til hennar erindi nákvæmar leiðbeiningar svo þeir villist ekki.

„Elliðavatn er í aðeins tíu mínútna fjarlægð frá borginni en vegalengdin vex mörgum í augum. Aðstaða til útivistar er afbragðs góð og ég er alltaf jafn hissa á því hvað fólk kemur hingað sjaldan, þekkir svæðið illa og nýtir sér það lítið, en það bregst ekki að þegar fólk kemur til mín grípur það andann á lofti og hrópar vá! af hrifningu,“ segir Guðbjörg sem eins og sönn bóndakona skipuleggur eina bæjarferð í viku til að sinna erindum sínum í bænum.

„Að vinna hér í Heiðmörk fæddi af sér hugmynd um að gróðursetja tré fyrir hvern áskrifanda og nú hefur orðið til fallegur lundur, nánast í bakgarðinum, þar sem við gróðursetjum á hverju hausti jafn mörg tré og áskrifendur eru hverju sinni. Mér finnst það krúttlegt og sé fyrir mér að fara með barnabörnin í lundinn eftir þrjátíu ár og sýna þeim trén sem þá hafa vaxið í hæstu hæðir,“ segir Guðbjörg sem í maí fagnar 10 ára afmæli tímaritsins Í boði náttúrunnar með afmælissýningu og hátíð í Laugardagshöll.

„Svo finnst mér æðislegt að keyra veginn upp í vinnu. Þá verð ég stundum agndofa yfir fegurðinni og það er svo góð byrjun á deginum. Þetta er svo fallegur bíltúr, mikil næring fyrir hugann og augun og hefur mikið að segja fyrir góðan vinnudag, hamingju og vellíðan.“