Hinn reyndi sérfræðingur dr. Michael Greger frá Bandaríkjunum er væntanlegur á ráðstefnuna í maí, sem Elín Sandra Skúladóttir heldur með Ingibjörgu Elísabetu Garðarsdóttur vinkonu sinni. Michael Greger er læknir sem hefur gefið út tvær bækur um plöntumiðað mataræði. „Dr. Greger er mjög virkur á samfélagsmiðlum og birtir rannsóknir og heldur fyrirlestra og það má segja að hann sé einn af þeim sem er hvað best að sér í rannsóknum á þessu sviði,“ segir Elín.

Auk dr. Gregers verða íslenskir fyrirlesarar á ráðstefnunni sem verður með svipuðu sniði og sú sem var haldin í október að sögn Elínar. Áherslan verður þó minni á krabbamein og hjartasjúkdóma en fjallað verður meira um heilsu almennt.

„Nýja bókin hans dr. Gregers heitir How not to diet. Hún fjallar svolítið um af hverju þyngdartap er erfitt og hvernig er hægt að grennast án þess að fara í megrun heldur breyta bara um lífsstíl,“ segir Elín.

„Mataræðið sem dr. Greger mælir með er hollt plöntumiðað fæði. Hann velur hreinan óunninn mat úr plönturíkinu. Það er komið svo mikið af vegan vörum núna, sem er kostur en líka ókostur. Heilsuáhrifin verða meiri ef maður velur sér hreinan óunninn mat,“ segir Elín.

Elín greindist með krabbamein fyrir þremur árum og ákvað þá að skipta yfir í vegan fæði til að ná betri heilsu. „Mig hafði alveg langað að gera það áður, en ég satt best að segja hélt ég að ég gæti það ekki,“ segir hún.

Vildi hámarka lífslíkur sínar

„Þegar ég veiktist fór ég að skoða möguleika mína, ég vildi hámarka líkur mínar á að lifa sem lengst. Ég byrjaði á að skoða ketó mataræðið. Ég skoðaði rannsóknir sem sýndu að það myndi lengja líf mitt, en á sama tíma skoðaði ég rannsóknir sem töluðu gegn því og var fljót að afskrifa það þegar ég bar saman þessar rannsóknir.“

Eftir því sem Elín skoðaði meira af rannsóknum varð niðurstaðan hollt plöntumiðað fæði. „Þarna er allur maturinn sem er hollur. Fæðutegundir sem virðast hjálpa líkamanum að verja hann fyrir krabbameini, eins og til dæmis jarðarber, bláber, túrmerik og fleira. Ég sá enga ókosti við þetta mataræði fyrir utan að ég þyrfti mögulega að taka inn B12,” segir Elín.

„Ég mat það þannig að ég myndi hámarka líkur mínar á að lifa sem lengst með því að gera þessar breytingar.“

Breytingarnar voru ekki auðveldar til að byrja með að sögn Elínar. „Sérstaklega af því ég var ekki að nota staðgengil fyrir kjöt eins og gervikjöt og ég hafði aldrei eldað úr baunum. Ég hafði einu sinni gert tófúrétt sem mér fannst ógeðslegur þannig að ég varð að læra allt upp á nýtt. En það lærðist fljótt,“ útskýrir hún.

„Núna er miklu meiri upplýsingar í boði en voru bara fyrir þremur árum þegar ég breytti um mataræði. Mér finnst margt hafa breyst á stuttum tíma. Ég viðurkenni að ég var frekar óflink í eldhúsinu og fannst alltaf ógeðslega leiðinlegt að elda. En það breyttist alveg eftir að ég hætti að elda úr kjöti. Núna hef ég bara gaman af að vera í eldhúsinu.“

Elín segist hafa upplifað mjög jákvæðar breytingar á sjálfri sér eftir að hún byrjaði á vegan mataræði.

„Ég var að fara í gegnum erfiða lyfjameðferð og skurðaðgerðir og þetta mataræði hafði svo mikil áhrif á meðferðina og hvernig mér leið. Ég var svo hress eitthvað. Þegar ég horfi til baka á þennan tíma og geri upp meðferðina þá finnst mér hún hafa leitt meira gott af sér en slæmt. Þess vegna vil ég miðla fróðleik um þetta mataræði áfram. Ekki bara til þeirra sem eru með krabbamein heldur líka þeirra sem vilja ekki fá krabbamein. Einn af hverjum þremur Íslendingum fær krabbamein á lífsleiðinni svo mér finnst gríðarlega mikilvægt að koma þessu á framfæri.“